Birta lífeyrissjóður samdi við Klappir um innleiðingu á hugbúnaði til að fylgjast með UFS frammistöðu eignasafns sjóðsins. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að samstarfið við Klappir sé liður í vegferð sem hófst fyrir tveimur árum þegar sjóðurinn setti sér umhverfistefnu og birti ársskýrslu í samræmi við alþjóðleg sjálfbærniviðmið (e. GRI). Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Löggjafinn hefur þegar lýst áformum sínum um að innleiða tvær ESB reglugerðir sem mun gera ríkari kröfu til lífeyrissjóða á þessu sviði. Annars vegar er það flokkunarreglugerðin EU Taxanomy Regulations sem ætlað er að samræma flokkun á atvinnustarfsemi eftir því hvort hún er umhverfissjálfbær eða ekki. Hún mun samræma skilning okkar á hugtakinu umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi og nýtast í samskiptum við okkar mótaðila í viðskiptum. Hins vegar er það reglur um upplýsingaskyldu (EU Disclosure Regulation) sem gerir ríkari kröfu um gagnsæi og birtingu upplýsinga á grundvelli ofangreinds flokkunarkerfis. Innleiðing á þessum reglugerðum felur í sér áskorun fyrir okkur enda stýrum við stóru eignasafni. Þessi upplýsingamiðlun þarf að vera skilvirk og áreiðanleg og þess vegna tökum við upp samstarf við Klappir. Þegar við upplýsum haghafa okkar um umhverfismál skiptir miklu máli að þær upplýsingar teljist staðlaðar og traustar,“ segir Ólafur.

Hugbúnaður Klappa mun halda utan um mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda frá fyrirtækjum og miðla upplýsingum um frammistöðu þeirra inn í sérstakt viðmót sem Birta fær aðgang að. Stafrænt vistkerfi Klappa henta öllum fyrirtækjum og tengir í dag saman meira en 400 aðila á Íslandi; fyrirtæki, sveitarfélög, ríkisstofnanir, ráðuneyti, bæjarfélög og hafnir.