Fjárfestingarráð Birtu lífeyrissjóðs, sem á tæplega fimm prósenta hlut í HB Granda, telur að eðlilegt hafi verið að kalla eftir óháðu mati á fyrirhuguðum kaupum útgerðarfélagsins á Ögurvík.

„Kaup HB Granda á Ögurvík eru áhugaverður fjárfestingarkostur að mati fjárfestingarráðs Birtu. Óháð mat ætti ekki að rýra þann kost að neinu leyti og því síður stuðla að einhvers konar óróa í eigendahópnum,“ segir í tilkynningu sem birt var á vef lífeyrissjóðsins í fyrradag.

Útgerðarfélag Reykjavíkur, áður Brim, sagðist fyrr í vikunni vilja hætta við að selja Ögurvík til HB Granda að sinni. Segist félagið ekki telja það skynsamlegt að „knýja viðskiptin í gegn á þessum tímapunkti gegn efasemdum eins af stærri hluthöfum í HB Granda“.

Sem kunnugt er lagði Gildi - lífeyrissjóður til að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka yrði falið að meta kaupin. Var tillagan lögð fram meðal annars í ljósi þess að aðaleigandi Ögurvíkur, Guðmundur Kristjánsson, væri forstjóri HB Granda og stærsti hluthafi félagsins.

Fjárfestingarráð Birtu segir að það að kalla eftir óháðu mati á viðskiptunum sé hvorki ávísun á sundurlyndi í hluthafahópnum né hafa neitt með minnihlutavernd í HB Granda að gera. 

„Það hlyti þá einfaldlega að koma í ljós á hluthafafundi hvort minnihlutavernd kæmi hér við sögu og hvaða stuðning tillaga um óháð mat hefði,“ segir í tilkynningunni.

Fjárfestingarráðið telur að skynsamlegt væri að samningur um kaup á Ögurvík yrði metinn af óháðum aðila, hvort heldur Kviku banka eða öðrum sem teldust óháðir gagnvart viðskiptunum.

Stjórn HB Granda hafði áður samþykkt að kaupa Ögurvík af Brimi fyrir 12,4 milljarða króna og stóð til að leggja kaupin fyrir hluthafafund hinn 16. október. Stjórnin hyggst ræða tillögu Útgerðarfélags Reykjavíkur um að hætt verði við viðskiptin á fundi sínum á mánudag, 15. október.

Brim, sem leitt er af Guðmundi Kristjánssyni, keypti 34 prósent hlut í HB Granda í apríl fyrir 21,7 milljarða króna. 

Frétt Fréttablaðsins: Vill hætta við söluna á Ögurvík