Birna Ósk hefur góða reynslu af markaðs- og birtingarmálum en áður vann hún sem birtingarstjóri hjá Billboard á Íslandi. Samhliða störfum hennar hjá Billboard starfaði Birna Ósk sem aðstoðarkennari í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Birna Ósk hefur lokið B.Sc. gráðu í sálfræði, með viðskiptafræði sem aukagrein, í Háskóla Íslands auk þess sem hún er að ljúka M.Sc. gráðu í viðskiptafræði við sama skóla.
Hreiðar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Datera: „Við erum einkar glöð að fá Birnu Ósk inn í reynslumikið teymi sérfræðinga hjá Datera. Við höfum verið að styrkja birtingarhlutann hjá okkur undanfarið og er ráðning Birnu liður í því.“
Datera er alhliða birtingahús sem sérhæfir sig í stjórnun árangursríkra og gagnadrifinna herferða, uppsetningu sjálfvirkra auglýsingaherferða, leitarvélabestun og alhliða ráðgjöf í markaðsmálum. Fyrirtækið nýtir nýjustu tæknilausnir á sviði stafrænnar markaðssetningar með það að markmiði að hámarka árangur og nýtingu markaðsfjár viðskiptavina. Hjá Datera starfa nú alls 12 sérfræðingar sem sinna verkefnum á þessu sviði fyrir innlendan og erlendan markað.