Birna Ósk Einars­dóttir, sem gegnt hefur stöðu fram­kvæmda­stjóra sölu- og þjónustu­sviðs hjá Icelandair Group, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá fé­laginu á næstunni.

„Síðustu fjögur ár hafa verið mögnuð reynsla. Að takast á við miklar á­skoranir með fram­úr­skarandi fólki alls staðar í fyrir­tækinu með það að mark­miði að halda uppi merkjum Ís­lands al­þjóð­lega. Ég er þakk­lát fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu mikil­væga hlut­verki, fyrir sam­starfs­fólk mitt og fyrir þá reynslu sem ég hef öðlast á þessum tíma. Það er ó­neitan­lega erfitt að kveðja en á sama tíma mun ég stolt fylgjast með fé­laginu taka flugið á ný inn í fram­tíðina,“ segir Birna Ósk Einars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu- og þjónustu­sviðs Icelandair Group, í til­kynningu frá fé­laginu.

Þar kemur fram að hún tók við starfi fram­kvæmda­stjóra sölu- og þjónustu­sviðs í febrúar 2019 eftir að hafa starfað sem fram­kvæmda­stjóri þjónustu­upp­lifunar og fram­kvæmda­stjóri stefnu­mótunar og við­skipta­þróunar frá því að hún hóf störf hjá Icelandair Group í janúar 2018.

Birna Ósk mun á­fram sinna starfi sínu hjá fé­laginu næstu mánuði og jafn­framt að­stoða við yfir­færslu verk­efna þegar þar að kemur.

„Ég þakka Birnu Ósk fyrir frá­bær störf og mikil­vægt fram­lag til fé­lagsins á undan­förnum árum. Undir for­ystu hennar hefur sölu- og þjónustu­svið Icelandair verið styrkt veru­lega þar sem upp­lifun við­skipta­vinarins er í for­grunni. Þá hefur hún leitt mikil­væg verk­efni í gegnum mjög krefjandi tíma. Ég óska henni til hamingju með nýtt tæki­færi á er­lendri grundu og alls hins besta í fram­tíðinni,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group.