Birna Ósk Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðssviðs APM Terminals, dótturfélags skipafélagsins Maersk í Haag í Hollandi. Hún mun hefja störf í janúar á næsta ári. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Fréttblaðið greindi frá því í morgun að Birna Ósk hafi látið af störfum sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair eftir að hafa starfað þar í rúm 2 ár.

Birna Ósk starfaði sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs hjá Landsvirkjun á árunum 2017-2018. Áður var hún framkvæmdastjóri hjá Símanum, eða frá árinu 2011, síðast yfir sölu- og þjónustusviði.

Birna er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi fyrir stjórnendur frá IESE Business School í Barcelona.