Birgitta Líf Björns­dóttir vill að þegar fólk gengur inn á Banka­stræti Club líði því eins og það sé kominn eitt­hvað annað og segir að með klúbbnum, sem opnar á morgun, ætli hún að skapa nýja klúbba­stemningu á Ís­landi.

„Banka­stræti opnar form­lega föstu­daginn 2. júlí klukkan sjö en ég er að halda smá boðs­partý á fimmtu­daginn til að fagna opnun og prufu­keyra allt saman. Þar munu koma fram nokkrir lista­menn en svo verður opnunar­helgin al­gjör veisla. DJ Snorri Ást­ráðs þeytir skífum á föstu­daginn á­samt því að Bassi Mara­j kemur fram, en hann er ein­mitt að gefa út nýtt lag á föstu­daginn. Á laugar­daginn verður Egill Spegill við DJ borðið og Floni heldur stemningunni uppi með flutningi. Ég get ekki beðið,“ segir Birgitta Líf í sam­tali við Frétta­blaðið.

Birgitta Líf er að breyta ansi miklu á staðnum sem hefur verið einn vin­sælasti á­fanga­staður djamm­þyrstra Ís­lendinga um ára­bil.

Elite Membership á 19.900

Aldurs­tak­markið verður 22 ára og þá er hún einnig að kynna með­lima­gjald, E­lite Mem­bers­hip aðildar­kort en það mun veita með­limum að­gang að „VIP röðinni“ við komu, að­gangi inn fyrir sig plús einn, og af­slætti á bæði barnum og flösku­borðum. Að sögn Birgittu verður hægt að kaupa slíkt kort stuttu eftir opnun staðarins.

„Við höfum hækkað aldurs­tak­markið inn á staðinn, rukkum inn eftir klukkan 22, bjóðum uppá að gerast með­limir og leggjum mikla á­herslu á fram­komu lista­manna, á hærri standard og betri þjónustu,“ segir Birgitta Líf.

Tvenns konar með­lima­að­gangur verður í boði, annars vegar með­lima­gjald á 5.990 krónur sem felur í sér ó­keypis að­gang og fimm skot á mánuði. Þá er dýrari að­gangur, E­lite Mem­bers­hip, sem mun kosta 19.900 en í þeim að­gangi er inni­falið ó­keypis að­gangur plús einn gestur, að­gangur að VIP röð og af­sláttur á bæði bar og flösku­borðum.

Að­gangur á staðinn mun annars vera 2.000 krónur eftir klukkan 22 á kvöldin og því fylgir drykkur í dós að eigin vali eða skot.

Birgitta Líf mælir með að gestir mæti snemma til að missa ekki af fjörinu.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Markhópurinn eldri en áður

Hún segir að á staðnum verði mótt­töku­stýrur við inn­gang sem taki á móti gestum sem hafi keypt sér flösku­borð og með­limum. Þær verða yfir hurðinni eins og þekkist á klúbbum er­lendis.

„Mark­hópurinn okkar að­eins eldri hópur en var í lokin á gamla b5. Við opnum einnig fyrr og lokum hurðinni snemma þar sem við viljum fá fólk fyrr inn og vera komin fyrr heim í háttinn. Sleppa við ruglið og ofur­ölvunina sem á sér oftast stað seinna á næturnar,“ segir Birgitta kíminn en staðurinn mun loka fyrir nýjum gestum klukkan 00:30.

„Svo ég mæli með að mæta snemma til að missa ekki af fjörinu,“ segir Birgitta Líf.

Setja upp ramp og tryggja öryggi

Gagn­rýnt var fyrr í sumar að enginn rampur væri á staðnum fyrir að­gengi þeirra sem eru í hjóla­stól en Birgitta segir að það verði greitt úr því í ágúst.

Spurð um öryggi gesta, og þá sér­stak­lega kvenna segir hún að fjöldi dyra­varða hafi verið aukinn og að það verði mikil á­hersla lögð á að það verði á­vallt dyra­vörður við salernin og inni á staðnum, ekki bara í dyrunum.

„Þá erum við einnig búin að funda með lög­reglunni og munum ganga í sam­tök með þeim um Öryggi skemmti­staða á­samt því að við erum með for­varnar­full­trúa, Kol­brúnu Birnu Bachmann, sem er búin að fræða allt starfs­fólk um for­varnir og hjálpar okkur að tryggja eins og hægt er öryggi fólks á staðnum okkar,“ segir Birgitta Líf.

Birgitta Líf vill tryggja öryggi gestanna: Dyravörður verður við salernin.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Uppfærður mangó tangó

Einn þekktasti drykkur gamla b5 er mangó tangó. Spurð hvað kok­teillinn muni kosta hjá henni segir Birgitta Líf að búið sé að þróa sex nýja signa­ture kok­teila fyrir staðinn í sam­starfi við Kára Sig.

„Þar er á seðli nýr og upp­færður Mangó Tangó, eða Mangó Tangó 2.0, og verða þeir allir á 2.500 kr.“

Greint var frá því í vikunni að dýrustu flöskurnar á flösku­borðunum á Banka­stræti Club Kosti 750 þúsund en Birgitta segir að verðið sé allt frá 30 þúsund.

„Flöskurnar eru frá 30.000 krónum en það er hægt að tryggja sér borð með því að bóka á bclub.is og greiða 10.000 króna stað­festingar­gjald sem fer upp í fyrstu flösku á staðnum. Bókunin inni­felur í sér frá­tekið borð á­samt að­gangi fyrir átta manns sem tryggir þeim þá bæði inn­göngu og að­gangs­eyrinn.“

Þá verður enn í boði að leigja annað hvort flösku­borð eða allt her­bergið niðri.

„Her­bergið niðri hefur fengið yfir­halningu og er nú „The Bubbly Room“. Þar er hægt að kaupa flösku­borð eða leigja her­bergið út í heild á­samt því að við leggjum á­herslu á að bjóða bubbly-borð á góðu verði fyrir klukkan 22 á kvöldin. Þá er til­valið fyrir hópa að kíkja í búbblur og vera komin inn á staðinn áður en allt fyllist og byrjað er að rukka inn,“ segir Birgitta að lokum.

Ætlar þú að vera Elite meðlimur í nýja klúbbnum?
Fréttablaðið/Eyþór Árnason