Minnihlutaeigendur í Domino’s í Noregi, þar á meðal fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt, hafa fest kaup á 71 prósents hlut í félaginu af Domino’s í Bretlandi. Þeir eignast þar með allt hlutafé í Domino's í Noregi.

Domino’s í Bretlandi greindi frá viðskiptunum í morgun en þau eru háð samþykki hluthafa félagsins.

Breska félagið mun í staðinn eignast minnihluta Birgis og fjárfestanna í rekstrarfélagi Domino’s í Svíþjóð og í kjölfarið fara með allt hlutafé í sænska félaginu. Stefna Bretarnir að því að selja það á næstunni, rétt eins og reksturinn í Sviss og á Íslandi.

Til viðbótar mun Domino’s í Bretlandi greiða um sjö milljónir punda fyrir rekstrarkostnað Domino’s í Noregi, meðal annars fyrir fyrirhugaða markaðsherferð Domino's í landinu, og fjármagna auk þess taprekstur norska félagsins þar til salan gengur endanlega í gegn.

Kaupendur að 71 prósents hlut Domino’s í Bretlandi eru nánar tiltekið félögin Pizza Holding, undir forystu Eirik Bergh, og Eyja fjárfestingfélag, sem Birgir Þór stýrir, en umrædd félög fóru fyrir kaupin með samanlagt minnihluta - 39 prósenta hlut - í rekstrarfélagi Domino’s í Noregi.

Samkvæmt kaupsamningi mun Pizza Holding kaupa 69 prósent af hlut Domino’s Pizza Group í norska félaginu og Eyja fjárfestingafélag 31 prósent.

Birgir opnaði Domino’s í Noregi árið 2014 ásamt fjárfestum en hópurinn seldi 71 prósents hlut til breska félagsins, Domino’s Pizza Group, árið 2016. Bretarnir greindu frá því í október í fyrra að þeir hefðu ákveðið að selja reksturinn sem er utan Bretlands, þar á meðal á Íslandi og í Noregi.

Greint var frá því í Markaðinum í desember í fyrra að viðræður fjárfestahópsins við Domino’s Pizza Group væru langt komnar.

Reksturinn í Noregi hefur reynst erfiður en til marks um það tapaði rekstrarfélagið þar í landi 6,6 milljónum punda, jafnvirði um 1,1 milljarðs króna, árið 2018. Þá dróst salan þar í landi saman um 10,5 prósent - á samanburðargrundvelli - á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.

Haft er eftir David Wild, forstjóra Domino’s Pizza Group, í tilkynningu félagsins að viðskiptin séu jákvæð fyrir alla sem eiga hlut að máli. Tap hafi verið á rekstri Domino’s í Noregi í nokkur ár og breska félagið hafi þurft að leggja talsvert fé í reksturinn. Áform nýrra eigenda séu spennandi.

Hann segir jafnframt að í kjölfar sölunnar muni félagið einbeita sér að því að selja reksturinn í Svíþjóð, Sviss og á Íslandi.

Domino’s rekur 55 pitsustaði í Noregi og þar af átta undir vörumerkinu Dolly Dimples. Eru starfsmenn um 1.200 talsins.

Birgir hefur lengi tengst Domino’s og rekið pitsustaði víða undir þeirra merkjum. Hann opnaði Domino’s á Íslandi árið 1993, fjórum árum seinna opnaði hann Domino’s í Danmörku og árið 2010 í Þýskalandi. Hann var minnihlutaeigandi í Domino’s á Íslandi og í Danmörku þar til hann keypti aðra hluthafa út árið 2004. Í aðdraganda hrunsins seldi Birgir hlut sinn í Domino’s á Íslandi og Danmörku til Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns. Birgir keypti Domino’s aftur árið 2011 og seldi pitsustaðina árið 2016 og 2017 til Domino’s Pizza Group.