Þrír lögmenn á LEX lögmannsstofu, þau Birgir Már Björnsson, Fanney Frímannsdóttir og Lára Herborg Ólafsdóttir, hafa gengið til liðs við eigendahóp stofunnar. Þetta kemur fram í frétt á vef lögmannsstofunnar.

Birgir Már er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti. Birgir hefur starfað á LEX frá árinu 2011 en var á árunum 2009 til 2011 hjá lögmannsstofunum Acta og Megin. Birgir hefur í störfum sínum hjá LEX lagt megináherslu á úrræði tengd greiðsluerfiðleikum, svo sem greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti, auk eignaréttar, félagaréttar og höfundaréttar.

Birgir Már Björnsson.
Ljósmynd/Lex

Fanney Frímannsdóttir er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Fanney hóf störf hjá LEX í nóvember 2011 en starfaði á árunum 2009 til 2011 hjá Kaupþingi. Fanney hefur í störfum sínum hjá LEX lagt megináherslu á félaga- og fjármálarétt og hefur einkum sinnt verkefnum sem felast í ráðgjöf til stærri fyrirtækja, banka og fjármálafyrirtækja auk ráðgjafar við kaup og sölu á fyrirtækjum.

Fanney Frímannsdóttir.
Ljósmynd/LEX

Lára Herborg, sem hóf störf hjá LEX í febrúar í fyrra, er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómsstólum. Hún lauk LL.M. gráðu í tæknirétti frá UC Berkeley í Bandaríkjunum vorið 2018.

Lára starfaði um skeið á tækni- og hugverkaréttardeild alþjóðlegrar lögmannsstofu í Lúxemborg og hefur sinnt margvíslegum verkefnum á sviði hugverka- og tækniréttar, þar með talið á sviði fjártækni og persónuverndar. Þá hefur Lára haldið fjölmarga fyrirlestra bæði hér á landi sem og erlendis og skrifað greinar á sviði tækni- og hugverkaréttar. Lára hefur auk þess í störfum sínum sinnt mörgum verkefnum á sviði verktaka- og útboðsréttar, félaga- og kröfuréttar auk stjórnsýsluréttar.