Birgir Þór Bieltvedt og fjárfestar eru langt komnir með viðræður um að kaupa Domino’s í Noregi af Domino’s í Bretlandi. Á næstu dögum mun koma í ljós hvort af kaupunum verður. Þetta herma heimildir Markaðarins.

Birgir opnaði Domino’s í Noregi árið 2014 ásamt fjárfestum en hópurinn seldi 71 prósents hlut til breska félagsins Domino’s Pizza Group árið 2016. Fram kom í fréttum í október að Bretarnir hefðu ákveðið að selja reksturinn sem er utan Bretlands. Stjórnendur sögðu að breska félagið væri ekki best til þess fallið að reka alþjóðlega keðju og myndi framvegis einbeita sér að rekstrinum í Bretlandi. Á meðal pitsustaða sem eru til sölu er reksturinn á Íslandi og í Noregi. Reksturinn í Noregi hefur reynst erfiður.

Fram hefur komið í erlendum fjölmiðlum að Domino’s reki um 50 pitsustaði og starfsmenn séu um 1.200. Fjárfestahópurinn á minnihluta í Domino’s í Svíþjóð. Horft er til þess í viðræðunum um kaup á pitsukeðjunni í Noregi að Domino’s Pizza Group kaupi minnihluta fjárfestahópsins í pitsustaðnum Svíþjóð, samkvæmt heimildum.

Móðurfélagið styður kaupin

Norski fréttamiðillinn Dagens Næringsliv sagði frá því fyrir tveimur mánuðum að fyrrverandi eigendur Domino’s stefndi á að kaupa fyrirtækið aftur. Einn fjárfestanna, Eirik Bergh, lét hafa eftir sér að hann reiknaði með að samningar myndu nást og nefndi að móðurfélag Domino’s styddi það að af kaupunum yrði.

Berg sagði að eftir kaupin árið 2016 hefðu nýir eigendur verið of stórhuga hvað varðar starfsemina í Noregi sem hefði leitt til þess að kostnaður hefði farið úr böndum.

Birgir starfað hjá Domino's frá 1993

Birgir hefur lengi tengst Domino’s og rekið pitsustaði víða undir þeirra merkjum. Hann opnaði Domino’s á Íslandi árið 1993, fjórum árum seinna opnaði hann Domino’s í Danmörku og árið 2010 í Þýskalandi. Hann var minnihlutaeigandi í Domino’s á Íslandi og í Danmörku þar til hann keypti aðra hluthafa út árið 2004. Í aðdraganda hrunsins seldi Birgir hlut sinn í Domino’s á Íslandi og Danmörku til Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns. Birgir keypti Domino’s aftur árið 2011 og seldi pitsustaðina árið 2016 og 2017 til Domino’s Pizza Group.