Domino’s Pizza Group, sem samþykkti í liðinni viku að selja minnihlutaeigendum Domino’s í Noregi, þar á meðal Birgi Þór Bieltvedt fjárfesti, allan 71 prósents hlut sinn í norska félaginu, hyggst samhliða sölunni greiða Birgi samanlagt 875 þúsund evrur, jafnvirði liðlega 120 milljóna króna, vegna uppgjörs á ráðgjafarsamningum sem breska félagið gerði við fjárfestinn á árunum 2016 og 2017.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Domino’s Pizza Group sendi kauphöllinni í Lundúnum í síðustu viku í tilefni af fyrirhugaðri sölu félagsins á rekstri Domino’s í Noregi. Umrædd sala, auk uppgjörsins á ráðgjafarsamningunum við Birgi, er háð samþykki hluthafa breska félagsins.

Domino’s Pizza Group mun annars vegar greiða Birgi 500 þúsund evrur til þess að gera upp skuldbindingar félagsins samkvæmt samkomulagi sem fólst í því að hann veitti félaginu ráðgjöf um rekstur og uppbyggingu Domino’s í Noregi og Svíþjóð til loka maímánaðar árið 2022. Samkomulagið gerði ráð fyrir að Birgir fengi greiddar um 250 þúsund evrur á ári til loka samningstíma.

Hins vegar greiðir breski pitsurisinn Birgi 375 þúsund evrur til uppgjörs á samningi sem fólst í því að hann ynni í samstarfi við félagið að því að tryggja sérleyfi fyrir rekstri Domino’s í Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum. Samkvæmt þeim samningi gat Birgir fengið greidda allt að eina milljón evra sem hlutafé í dótturfélögum Domino’s Pizza Group í áðurnefndum ríkjum, ef orðið hefði af stofnun slíkra félaga.

Í tilkynningu Domino’s Pizza Group er þó tekið fram að hann muni áfram veita Pizza-Pizza, sem á og rekur Domino’s á Íslandi, almenna ráðgjöf samkvæmt ráðgjafarsamningi frá því í lok árs 2017. Breska félagið hefur sem kunnugt er tilkynnt um áform sín um að selja allt hlutafé sitt í umræddu félagi.

Á þeim tíma sem breska félagið samdi við Birgi um ráðgjafarstörf sögðu forsvarsmenn félagsins mikilvægt að hann kæmi áfram að uppbyggingu þess á mörkuðum á Norðurlöndunum í ljósi reynslu hans og tengsla við sérleyfishafann á heimsvísu.

Birgir hefur lengi tengst Domino’s og rekið pitsustaði víða undir þeirra merkjum, meðal annars á Íslandi, í Danmörku, Þýskalandi og Noregi.