Milljarða­mæringurinn og stofnandi Micros­oft, Bill Gates, viðraði í dag á­hyggjur sínar vegna halla ríkis­sjóðs Banda­ríkjanna. Hann segir að hinir vell­auðugu ættu að greiða hærri skatta, einkum af fjár­magns­tekjum. 

„Við inn­heimtum að­eins um 20 prósent af VLF (vergri lands­fram­leiðslu) and eyðum um 24 prósent af VLF. Við getum ekki látið hallann vaxa hraðar en hag­kerfið,“ sagði Gates í við­tali í þætti Fareed Zakaria á CNN-sjón­varps­stöðinni í dag. 

Stjórn­mála­menn af vinstri væng stjórn­málanna, til að mynda Berni­e Sanders og Alexandria O­casio-Cor­tez, hafa lagt til að skatt­hlut­fall þeirra sem mestra tekna afla verði hækkað upp í 70 prósent. Slíkt tíðkaðist í Banda­ríkjunum allt þar til á níunda ára­tugnum. 

Gates er ekki alveg fylgjandi slíkri hug­mynd og segir á­kveðinn mis­skilnings gæta um hvernig staðið var að slíkri skatt­heimtu á síðustu öld. Fólk hafi getað fundið glufu á kerfinu og komist upp með að greiða ekki hærri skatt en 40 prósent. 

Hann segir að mikilvægt sé að ráðast í hækkun á fjár­magns­tekju­skatti á hina ríkustu. Það myndi leysa tals­verða flækju ef fjár­magns­tekju­skattur yrði hækkaður til jafns við skatt á launatekjur fólks. „Fjár­festinga­sjóðir eiga til að færa skatt­byrðina yfir í fjár­magns­tekju­flokkinn. Þannig við þurfum að ein­falda þetta,“ sagði Gates að lokum.

Frétt Bloomberg um málið.