Fjöldi nýskráðra bíla dróst saman um 15 prósent á milli ára en þeir töldu 19.879 í fyrra, samkvæmt gögnum frá Ergo. Aldrei höfðu fleiri bílar verið seldir en árið 2017. 2018 fór vel af stað en það fór að hægja á sölunni á seinni hlutanum. Bílasalar hafa sagt að meðal annars hafi óvissa varðandi kjarasamninga dregið úr sölunni. Samdrátturinn í desember var 46 prósent.

Mazda fór frá því að vera fimmta mest selda bílategundin á árinu 2017 í níunda sætið á árinu 2018 og tók Nissan fimmta sætið. Markaðshlutdeild Toyota var 17 prósent í fyrra og er Toyota sem fyrr mest selda tegund ársins. Næst á eftir kom KIA með tíu prósenta hlutdeild og Hyundai með átta prósenta hlutdeild eða 1.523 bíla.

BL er sem fyrr stærsta bílaumboðið með 27 prósenta hlutdeild, Toyota á Íslandi er með tæplega 17 prósenta hlutdeild, Hekla með 16 prósent, Brimborg um 15 prósent og Askja tólf. Önnur umboð eru töluvert minni og er markaðshlutdeild þeirra eitt til þrjú prósent.