Heildar aukning í sölu nýrra fólksbíla er því 53 prósent það sem af er ári sé horft til sama tímabils 2021. Sala nýrra fólksbíla í júní jókst um rétt rúmlega 32 prósent miðað við júní í fyrra, en alls voru skráðir 2424 nýir fólksbílar nú en í júní 2021 voru 1834 nýir fólksbílar skráðir

Til einstaklinga seldust 571 nýir fólksbílar í júní saman borið við 607 á sama tíma í fyrra og er því minni sala til einstaklinga um 5,9 prósent milli ára í júní. Á árinu 2022 hafa selst 3195 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra höfðu selst 2707 nýir fólksbílar á sama tíma sem þýðir aukningu í sölu til einstaklinga um 18 prósent á þessu ári.

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 180 nýja fólksbíla í júní í ár miðað við að hafa keypt 202 bíla í júní í fyrra. Á þessu ári hafa selst 988 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en 2021 voru seldir 978 nýir fólksbílar á sama tímabili.

Sala til ökutækjaleiga jókst umtalsvert sé horft til síðastliðins árs og þörf á stækkun flota ökutækjaleiga og endurnýjun sökum þess ástands sem heimsfaraldur skapaði í ferðaþjónustu meðal annars ræður þar mestu um. Í júní voru 1658 nýir fólksbílar seldir til ökutækjaleiga og til samanburðar voru seldir 983 nýir fólksbílar til ökutækjaleiga í júní 2021. Aukning í sölu nýrra fólksbíla í ökutækjaleigur í júní er því um 69 prósent miðað við síðasta ár.

Á árinu 2022 hefur sala nýrra fólksbifreiða í ökutækjaleigur aukist gríðarlega og hefur sú aukning hlutfallslega mest áhrif á aukningu í sölu nýrra fólksbifreiða á þessu ári en sala til ökutækjaleiga hefur aukist um 118 prósent sem af er árinu sé horft til sama tímabils í fyrra. Á árinu hafa verið seldar 4991 nýjar fólksbifreiðar í ökutækjaleigu samanborið við 2292 bíla í fyrra.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, metan) eru rétt rúmlega 52,5 prósent allra seldra nýrra fólksbíla á árinu en hlutfall nýorkubíla heldur áfram að aukast jafnt og þétt (rafmagn 25,96 prósent, tengiltvinn 26,51 prósent) en þetta hlutfall var í heildina um það bil 44 prósent á sama tíma á síðasta ári. Sé horft til síðasta árs þá hefur sala á tengiltvinnbílum aukist það sem af er ári en verulega hefur hægst á þeirri þróun sökum niðurfellingar stjórnvalda á ívilnun vegna tengiltvinnbíla og hækkandi verðs samhliða því.

Sé horft til kaupa ökutækjaleiga þá má glöggt sjá að niðurfelling á ívilnunum tengiltvinnbíla hefur haft veruleg áhrif á val ökutækjaleiga við kaup á nýjum fólksbílum en af þeim 1658 nýjum fólksbílum sem ökutækjaleigur keyptu í júní eru 28,5 prósent rafmagns- og tengiltvinnbílar og hlutfall fer hratt lækkandi í kaupum á vistvænum bílum. Bílgreinasambandið hafði varað við þessari þróun og hvaða áhrif það hefði á markmið stjórnvalda í loftlagsmálum til lengri tíma. Ökutækjaleigur eru með um 55 prósent af heildarmarkaði það sem af er ári og þar sem ökutækjaleigur kaupa nú í auknu mæli bensín og dísel bíla sem eru ódýrari og hinn hefðbundni ferðamaður sem heimsækir Ísland vill taka á leigu þá er ljóst að fyrrnefndar aðgerðir stjórnvalda og fyrirhugaðar aðgerðir eru einungis til þess fallnar að hægja á þróun á orkuskiptum í samgöngum og setja um leið metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftlagsmálum í uppnám.

Hlutfall hybrid bíla lækkar örlítið sé sama tímabíl skoðað á milli ára en það sem af er ári er 19,9 prósent af heildarsölu nýrra fólksbifreiða til samanburðar við tæplega 21 prósent árið 2021.

Í júní var Toyota mest selda fólksbíla tegundin með 555 selda fólksbíla, þar á eftir kemur Kia með 260 selda fólksbíla og þriðja mest selda fólksbílategundin í júní var Dacia með 242 nýja fólksbíla skráða. Mest selda fólksbílategundin það sem af er árinu 2022 er Toyota með 1846 selda fólksbíla, en þar á eftir kemur Kia með 932 selda fólksbíla og þriðja söluhæsta fólksbílategundin það sem af er ári er Hyundai með 900 selda fólksbíla.