Eftir að hafa fækkað um 38 prósent frá því þegar mest var í júlí 2018 þar til í maí á þessu ári, hefur bílaleigubílum fjölgað um 16 prósent frá maí til ágúst. Þetta kemur fram í gögnum sem Samgöngustofa útbjó fyrir Markaðinn.

„Það er ánægjulegt að greinin hafi vaknað til lífsins fyrr en menn þorðu að vona í vor,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds.

Fjöldi bílaleigubíla náði hámarki í júlí 2018 en þá voru þeir 27 þúsund talsins. Í kjölfarið fækkaði þeim jafnt og þétt og í byrjun árs 2020 voru þeir um 23 þúsund talsins.

Eftir að kórónuveiran kom til sögunnar og lamaði ferðaþjónustuna seldu bílaleigur töluverðan hluta af flota sínum. Bílaleigubílum fækkaði úr 22 þúsundum í tæplega 17 þúsund á tímabilinu maí 2020 til maí 2021. Eftir fjölgun í sumar eru þeir nú orðnir 19.500 talsins.

bilaleigur2.JPG

Þegar ferðamenn tóku að streyma til landsins af miklum þunga í sumar áttu bílaleigur erfitt með að anna eftirspurninni, sem var meiri en reiknað var með. Einnig voru tafir á afhendingu og framleiðslu á nýjum bílum.

Bílaleigubílum hefði mögulega fjölgað hraðar ef ekki hefði verið fyrir tafir í framleiðslu og afhendingu vegna Covid-19.

„Greinin fór aftur í gang seinnipartinn í júní. Eftirspurnin jókst með stuttum fyrirvara og mun meira en menn höfðu gert ráð fyrir,“ segir Steingrímur.

„Það var allt fullbókað í sumar en nú eiga menn lausa bíla.“

„Eftirspurnin jókst með stuttum fyrirvara og mun meira en menn höfðu gert ráð fyrir.“

Á síðustu mánuðum hafa bílaleigur bætt töluvert við bílaflotann. Frá því að fjöldi bíla náði lágpunkti í maí – sem fyrr segir voru þeir tæplega 17 þúsund talsins – hefur þeim fjölgað um 2.700.

Í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu í gær kom fram að 8.612 nýir fólksbílar hefðu selst það sem af er ári, samanborið við 6.254 á sama tímabili í fyrra. Bílaleigur hafa keypt 3.710 bíla á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við 1.646 á sama tíma í fyrra – það samsvarar aukningu upp á 125 prósent milli ára – og hafa því keypt um 43 prósent af öllum seldum fólksbílum á árinu.

Þá hefur leyfishöfum fyrir bílaleigurekstur farið fjölgandi það sem af er ári. Þeir eru nú um 100 talsins en voru 86 í lok árs 2020.

Steingrímur segist bjartsýnn fyrir veturinn miðað við bókunarstöðuna, sem hann telur ásættanlega. „En fyrirvarinn er stuttur, bókanir berast með einnar til sex vikna fyrirvara, sem veldur því að erfitt er að skipuleggja fram í tímann,“ segir Steingrímur.

Sundurliðun á fjölda bílaleigubíla eftir bílaleigum sýnir að Höldur, leyfishafi Europcar á Ísland, er langstærsta bílaleigan með rétt tæplega 5 þúsund bíla á sínum snærum. Næst kemur ALP, leyfishafi Avis og Budget, með tæplega 3 þúsund bíla og þriðja stærsta bílaleigan er Bílaleiga Flugleiða, leyfishafi Hertz, með tæplega 2 þúsund bíla.

bilaleigur.JPG

Samdráttur í komu ferðamanna á síðasta ári kom skýrt fram í ársuppgjöri stærstu bílaleiganna.

Tekjur Hölds, stærstu bílaleigu landsins, drógust saman um 25 prósent á milli ára og námu 5,3 milljörðum króna árið 2020. Bílaleigan tapaði 300 milljónum í fyrra samanborið við 238 milljóna króna hagnað árið 2019. Tekjur ALP drógust saman um 59 prósent á milli ára og námu 1,8 milljörðum króna árið 2020. ALP tapaði 804 milljónum króna árið 2020, samanborið við 39 milljóna tap árið áður.