Frá og með deginum í dag verður bílaapótek Lyfjavals í Hæðasmára opið allan sólarhringinn en hingað til hafa bílalúgurnar verið opnar frá klukkan 10:00 til 23:00.
Lyfjaval opnaði fyrsta frjálsa apótekið á Íslandi árið 1996 og árið 2005 var fyrsta bílaapótekið tekið í notkun. Netsala á lyfjum hófst einnig árið 2022. Lyfjaval rekur nú sjö apótek og af þeim eru sex á höfuðborgarsvæðinu.
,Við höfum fengið mjög margar áskoranir um aukinn opnunartíma og teljum mikilvægt að verða við þeim. Það er það stór hópur á ferðinni á nóttunni, ferðamenn, fólk í vaktavinnu og fólk sem þarf á lyfjum og annarri þjónustu að halda, hvað svo sem klukkan er,” segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals.
Hann segir bílalúgurnar gera fólki auðveldara um vik að nálgast lyf og aðrar nauðsynjar en ef fólk þyrfti að fara inn í apótekið sjálft og því sé hann ekki í vafa um að stór hópur muni vilja nýta sér þessa stórauknu þjónustu.
,,Við finnum verulega fyrir því hvað fólk kann vel að meta bílalúgurnar og því erum við að leggja sífellt meiri áherslu á þær. Þarna höfum við algera sérstöðu og allir sem prófa sjá hvað þetta er einfalt og þægilegt, bara mæta og bíða svo í smá stund í rólegheitum í bílnum meðan verið er að afgreiða þig,” segir Svanur.