Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 23. september 2020
07.00 GMT

Fólk um allan heim keypti Bioeffect húðvörur fyrir um átta milljarða á árinu 2019. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni sem stendur að baki vörumerkinu, segir að velta fyrirtækisins hafi verið tveir milljarðar í fyrra, en með álagningu frá heildsölum og smásölum sé útsöluverðmætið eins og fyrr segir um átta milljarðar.

Hún segir að sölunni sé skipt jafnt á milli Evrópu, Bandaríkjanna og Asíu. „Mesti vöxturinn er í Bandaríkjunum og Kína vegna stærðar markaðanna.“

Gert er ráð fyrir því að COVID-19 leiði til þess að tekjur ORF Líftækni muni dragast saman um 25 prósent í ár. Árið áður jukust þær um 22 prósent á milli ára. „Við lítum á það sem varnarsigur því stór hluti af sölunni fer fram í fríhöfnum, flugvélum og þekktum verslunum í stórborgum eins og Harrods í London sem alla jafna eru uppfullar af ferðamönnum en ekki heimamönnum. Í stað þess að leggja árar í bát og bíða eftir því að aðstæður batni hófum við stórsókn á netinu.“

„Ýmsir lögðu til við mig að ég myndi starfa eingöngu sem stjórnarmaður í fyrirtækjum en ég svaraði þeim einatt: Það er ekki ég,“ segir Liv.
Mynd/Aðsend

Liv, sem stýrði Nova frá stofnun í tólf ár, tók í apríl við rekstri ORF Líftækni af Frosta Ólafssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.

Ég vil tilheyra liðsheild

Af hverju ákvaðstu að taka við starfi forstjóra ORF Líftækni? Hvað kitlaði?

„Ég var ákveðin í að ráða mig í fullt starf eftir að ég hætti hjá Nova. Ýmsir lögðu til við mig að ég myndi starfa eingöngu sem stjórnarmaður í fyrirtækjum en ég svaraði þeim einatt: Það er ekki ég.

Ég hef notið þess að sitja í öllum þeim stjórnum sem ég hef tekið að mér. Stjórnarmenn miðla af reynslu sinni og þekkingu, en að sama skapi læra þeir fjölmargt um fyrirtækið sjálft og atvinnugreinina. Stjórnarseta er eins konar ráðgjafahlutverk. Stjórnarmenn fara ekki eins djúpt inn í fyrirtækið, bretta ekki upp ermar og taka þátt í verkefnum. Ég vil tilheyra liðsheild. Af því hef ég gaman.

Ég ætlaði að taka mér smá hvíld áður en ég myndi ráða mig í nýtt starf. Það var ekki fastmótað hvert hugurinn stefndi. Svo bauðst mér að stýra ORF Líftækni. Það sem heillaði mig við fyrirtækið er að það starfar á sviði hátækni. Nú tekst ég á við plöntulíftækni í stað fjarskiptatækni áður. Hópur sérfræðinga er að skapa spennandi vörur sem túlka þarf yfir á markaðinn. Í mínum huga hakaði ORF Líftækni í öll réttu boxin: Verkefnið er að byggja upp öflugt vörumerki á alþjóðavísu. Fram að því hafði ég einkum starfað á heimamarkaði. Um er að ræða annars konar áskorun, sem mér þykir spennandi.

Það eru mikil tækifæri til að byggja á góðum grunni ORF Líftækni og sækja fram með því að þróa vörulínuna og efla sýnileika á netinu og í netverslun.“

Minni fyrirtæki og breytingastjórnun

Liv segir að það eigi vel við sig að starfa hjá minni fyrirtækjum og að takast á við breytingastjórnun. „Þegar skipt er um starf er hollt að spyrja sig: Hvar á ég heima sem stjórnandi og hvar nýtist mín reynsla? Ég finn mig mjög vel í fyrirtækjamenningu sem er frumkvöðladrifin og hlutirnir ekki sérlega formfastir.“

Hvað geturðu sagt mér um starfsemi ORF Líftækni?

„ORF Líftækni var stofnað árið 2001 þegar hópur vísindamanna hóf að þróa og framleiða vaxtarþætti, eða sérvirkt prótein, úr byggi. Níu árum síðar hófst sala á fyrstu húðvörunni en virka efnið í Bio­effect, EGF, stuðlar að endurnýjun húðfruma. Nú er boðið upp á 13 mismunandi vörur. Bioeffect húðvörurnar skapa um 95 prósent af tekjum fyrirtækisins.“

Hátæknigróðurhús ORF Líftækni er staðsett í Grindavík þar sem ræktaðar eru allt að 130 þúsund byggplöntur í einu á tvö þúsund fermetrum.
Mynd/Aðsend

Hvaðan kemur það sem eftir stendur?

„Vaxtarþættirnir eru einnig seldir til rannsóknarstofa. Það hefur alltaf verið stefnt að því að selja vaxtarþættina inn á fleiri markaði sem gætu nýtt þá við framleiðslu á sínum vörum. Nýverið fengum við til að mynda 400 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til að þróa vaxtarþætti sem nýta má til kjötræktar, og áður höfðum við fengið 50 milljónir króna í sama verkefni frá Tækniþróunarsjóði. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að borðað verði kjöt sem framleitt verður á rannsóknarstofum og dýravaxtarþættir eru mikilvægt hráefni í þá framleiðslu.“

Aðspurð segir hún að sex af 61 starfsmanni ORF Líftækni séu með doktorspróf. Tveir þeirra séu stofnendur fyrirtækisins, sem leiði viðskiptaþróun, Björn L. Örvar og Júlíus Birgir Kristinsson. Þriðji stofnandinn, Einar Mäntylä, starfaði hjá fyrirtækinu í 13 ár. Samkvæmt ársreikningi eiga stofnendurnir þrír samanlagt rúmlega átta prósenta hlut, en hluthafar ORF Líftækni eru samanlagt 103.

Neytendur upplýstari en áður

Hver er sérstaða Bioeffect?

„Í húðvörunum er húðvaxtarþátturinn EGF sem er framleiddur í byggplöntum á Íslandi. Rannsóknir sýna að hann hægir á öldrun húðarinnar. Auk þess eru einungis sjö innihaldsefni í húðdropunum, þar á meðal íslenskt vatn og engin gerviefni.

Neytendur eru mun upplýstari en áður fyrr og eru meðvitaðir um innihald þess sem þeir borða og húðvara sem þeir bera á sig. Aðrar snyrtivörur gætu jafnvel verið með 50 til 70 innihaldsefni. Þess vegna hittir Bioeffect-línan í mark á hratt vaxandi markaðssyllu, sem er heilnæmar og hreinar snyrtivörur.

Í markaðsmálum vinnum við mikið með hreinleika húðvaranna, að þær komi frá Íslandi og byggi á vísindastarfi. COVID-19 leiðir til þess að neytendur eru meðvitaðri um umhverfismál en Bioeffect er framleitt á Íslandi í sátt við náttúruna.“

„Í markaðsmálum vinnum við mikið með hreinleika húðvaranna, að þær komi frá Íslandi og byggi á vísindastarfi,“ segir Liv.
Fréttablaðið/Anton Brink

Liv segir að tólf mánuðum eftir að fyrsta vara ORF Líftækni kom á markað fyrir tíu árum, hafi 30 prósent kvenna hér á landi notað vöruna. „Góðar viðtökur fylltu starfsmenn fyrirtækisins sjálfstrausti og því var ákveðið að selja vörurnar erlendis um tveimur árum eftir að salan hófst á Íslandi. Í upphafi var horft til Skandinavíu, því næst Evrópu, svo Bandaríkjanna og loks Kína. Nú eru vörurnar seldar í 27 löndum um allan heim. Í haust munum við hefja sölu til Singapore og Kúveit.

Við önnumst sjálf sölu og markaðssetningu á Íslandi, Bretlandi og í Bandaríkjunum, en annars staðar hafa heildsalar tekið það hlutverk að sér.“

Talið berst að aftur að COVID-19 og örum vexti í sölu í Kína. „Nú ferðast fólk ekki. Mögulega má rekja hluta af aukinni sölu í Kína til þess að nú kaupi Kínverjar vörurnar í heimalandinu en ekki á ferðalögum,“ segir Liv.

Tveir valkostir

Hún segir að COVID-19 hafi gefið stjórnendum ORF Líftækni tvo valkosti. „Annað hvort að bíða eftir því að verslanir muni fyllast á nýjan leik eða leggja aukna áherslu á netverslun og sýnileika á netinu. Við völdum síðari kostinn. Við vorum með hillupláss í verslunum sem nú eru lokaðar og það þurfti að færa hilluplássið yfir á netið. Það hefði ekki verið rétt stefna hjá okkur að bíða eftir að COVID-19 væri gengið yfir heimsbyggðina. Við verðum að fjárfesta í því að fyrirtækið geti tekist á við breytta heimsmynd. Það kostar mikið að auka sýnileika á netinu.

Það má leiða að því líkur að kauphegðun margra muni breytast, eftir að þeir vöndust því að versla á netinu. Það liggur ekki í augum uppi að þeir sem áður keyptu snyrtivörur á ferðalögum muni haga sér með sama hætti eftir að hafa nýtt netverslun í ríkum mæli. Þróunin er sú að ferðamenn sækjast æ oftar eftir upplifun, en áður fyrr fóru margir í verslunarferðir eða vörðu stórum hluta ferðarinnar í verslunum. Það eru mikil tækifæri fyrir lítil fyrirtæki eins og okkar að sækja fram á netinu.“

Plönturnar vaxa og dafna í 30 daga í gróðurhúsi ORF Líftækni.
Ljósmynd/ORF Líftækni

Ég hugsa um ORF Líftækni sem sprotafyrirtæki. En fyrirtækið er 19 ára gamalt?

„Kosturinn við fyrirtæki er að þau þurfa ekki að eldast, ólíkt okkur. Þau eiga alltaf að vera eins og þeim hafi verið hleypt af stokkunum í gær. Hvort sem fyrirtækið er tíu ára gamalt eða 100 ára, þarf það að hafa hungur og frumkvöðlaanda til að fá kraft til að halda áfram að hlaupa.

Eitt af því sem mér fannst svo heillandi við ORF Líftækni er að það er lítið fyrirtæki með frumkvöðlaanda og fjölmörg vaxtartækifæri.“

Salan tvöfaldist á fimm árum

Hvað geta húðvörurnar vaxið hratt á næstu fimm árum?

„Ég set metnaðarfull markmið og vil allavega tvöfalda söluna á fimm árum.“

Eins og fyrr segir velti ORF Líftækni tveimur milljörðum króna árið 2019. Miðað við það er stefnt að því að veltan verði fjórir milljarðar að fimm árum liðnum. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf um 15 prósenta vöxt á ári. „Eigum við ekki að segja að það sé algjört lágmark“ segir Liv.

Setur COVID-19 strik í reikninginn hvað það varðar?

„COVID-19 mun gera það að verkum að salan mun dragast saman um 25 prósent í ár, samkvæmt okkar áætlunum. Það er oft þannig í rekstri fyrirtækja, eftir að hafa barist lengi og boltinn fer loksins að rúlla – árin 2018 og 2019 voru þau bestu í sögu fyrirtækisins – getur komið bakslag. ORF Líftækni verður ekki rekið með hagnaði í ár.“

„Þegar fólk fer að ferðast aftur á reksturinn að geta farið tiltölulega hratt aftur á skrið,“ segir Liv.
Mynd/Aðsend

Verður tapið mikið í ár?

„Nei. Reksturinn gekk vel á árunum 2018 og 2019. Við höfum borð fyrir báru til að takast á við taprekstur í ár og við reiknum líka með því að næsta ár verði krefjandi. Þegar fólk fer að ferðast aftur á reksturinn að geta farið tiltölulega hratt aftur á skrið.“

Árið 2019 hagnaðist ORF Líftækni um 305 milljónir króna og 160 milljónir króna árið áður. Arðsemi eiginfjár var 21 prósent á árinu 2019. Eigið fé var 1,65 milljarðar króna við lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið var 51 prósent.

Stöðugildum fækkaði um níu

Var ráðist í miklar hagræðingar­aðgerðir vegna COVID-19?

„Já, við réðumst í töluverða hagræðingu í vor, fljótlega eftir að ég tók við starfinu. Í ljósi breyttra aðstæðna gerðum við allar rekstrar­áætlanir upp á nýtt. Það var augljóst hvar við myndum missa sölu og hvar við gætum sótt auknar tekjur. Stöðugildum fækkaði um níu og eru nú 61.

Hagræðingaraðgerðirnar voru sömuleiðis liður í því að færa okkur í átt að aukinni sókn á netið, með minni áherslu á hefðbundnar verslanir. Til þess að sækja þar fram þarf annars konar samsetningu af starfsfólki og við gátum ekki bætt því fólki við okkur án þess að hagræða. Fyrir jól munum við ráða í nýjar stöður hjá fyrirtækinu.“

Er það kostnaðarsöm vegferð að auka söluna og sýnileikann á netinu?

Ljósmynd/Orf líftækni

„Margir vanmeta kostnaðinn og telja að það sé mun ódýrara að selja á netinu. Það má segja að það kosti jafnmikið að koma á fót góðri vefverslun og að innrétta verslun. Það þarf að skapa góðan vef, auglýsa ríkulega og vera sýnilegur á vefnum, ásamt því að tengjast neytendum með lifandi markaðsefni. Það kostar umtalsvert.“

Ný áskorun fyrir mig

Hvað kom þér á óvart við að taka við ORF Líftækni?

„Það er ný áskorun fyrir mig að koma inn í rekstur rótgróins fyrirtækis. Ég hef aldrei áður tekið að mér að stýra fyrirtæki þar sem ég hef ekki verið með frá fyrsta degi, ég hef því alltaf ráðið mitt fólk inn.

Ég er vön að rjúka af stað í verkefni, vera hvirfilbylur. Ég þarf núna að gefa mér tíma til að kynnast samstarfsfólkinu og starfseminni, til dæmis viða að mér upplýsingum um það sem hefur verið reynt, hvað gekk vel og hvað ekki.“

Nýsköpun leiðin úr kreppunni

Liv segir að nýsköpun sé leiðin út úr kreppunni sem COVID-19 heimsfaraldurinn gat af sér. „Það þarf að leita leiða til að fjölga sprotafyrirtækjum. Tækniþróunarsjóður og annars konar stuðningur er afar mikilvægur fyrir sprotafyrirtæki.“

Liv segir að nýsköpun sé leiðin út úr kreppunni sem COVID-19 heimsfaraldurinn gat af sér. „Það þarf að leita leiða til að fjölga sprotafyrirtækjum.“

Hún segir að öll ný fyrirtæki sem ráðast þurfi í miklar fjárfestingar muni tapa fé fyrstu árin. „Það er alveg sama hversu gott slíkt fyrirtæki er, það verður aldrei rekið með hagnaði frá upphafi. Fjárfestar þurfa að sýna þolinmæði, þetta er vegferð sem tekur fjölda ára. Allt í einu, einn daginn, fer reksturinn að ganga og þá þarf að gæta þess að snjóboltinn rúlli í rétta átt.“

Það þarf sem sagt að sýna taprekstri nýrra fyrirtækja þolinmæði?

„Öðruvísi gerum við ekkert nýtt.“

Shoplifter hannaði tíu ára afmælisútgáfu

Í tilefni af tíu ára afmælis Bioeffect var efnt til samstarfs við listamanninn Hrafnhildi Arnardóttur, sem gengur undir listamannsnafninu Shoplifter, um afmælisútgáfu af EGF Serum. „Shoplifter skapaði einstakan skúlptúr og styrkleiki húðdropanna er meiri en vanalega. Með þessu framtaki viljum við vekja athygli á vörumerkinu á alþjóðavísu,“ segir Liv.

„Shoplifter skapaði einstakan skúlptúr og styrkleiki húðdropanna er meiri en vanalega,,“ segir Liv.
Fréttablaðið/Anton Brink

Flaskan er þrisvar sinnum stærri en venjulega og kostar 450 evrur, jafnvirði 72 þúsund króna. „Þetta er einstakur listgripur. Skúlptúrinn, sem er innblásinn af íslensku hrauni, er stór hluti af verðinu,“ segir hún.

Liv segir að 95 prósent af sölunni verði erlendis. Gert sé ráð fyrir að afmælisútgáfan verði seld í „mörg þúsund eintökum“.

Reyktur lax frá Iceland Seafood. Liv er stjórnarformaður fyrirtækisins.
Aðsend/Iceland Seafood

Liv er stjórnarformaður Iceland Seafood

Liv er stjórnarformaður Iceland Seafood. „Þegar ég réð mig til ORF Líftækni ákvað ég að helga mig því starfi og sagði mig því úr stjórn Aur appsins og KEA Hótela. Ég var hins vegar búin að lofa mér í stjórn Iceland Seafood og ákvað að gegna því starfi áfram. Ég hef haft mjög gaman að því að kynnast sjávarútveginum. Ég sækist í áskoranir þar sem breytingar eru fram undan. Það heillar mig,“ segir hún.

Athugasemdir