„Við teljum að ef Skúli og hans besta fólk getur endurreist WOW Air þá eigum við sem einstaklingar í þessu landi að sameinast um að hjálpa til. Því hvetjum við einstaklinga og fyrirtæki til að leggja fram lítilsháttar hlutafé í krafti fjöldans og tryggja rekstur WOW Air til framtíðar.“

Þetta kemur fram á vefsíðunni hluthafi.com, þar sem almenningi gefst kost á að leggja fram loforð um hlutafé í nýju flugfélagi. „Ef ekki verður af endurreisn WOW Air og eða nýtt félag stofnað, þá verður þetta loforð um hlutafé ógilt og fellur niður.“

Ekki er ljóst hver stendur að baki síðunni. Þar segir aðeins að um sé að ræða fyrrverandi viðskiptavini WOW Air og annarra flugfélaga. „Við vitum að ef samkeppni minnkar eða fellur niður í samkeppnisumhverfi þá töpum við til lengri tíma.“ Ferðaþjónusta hafi aukið hagvöxt á Íslandi „og viljum við tryggja þau gæði áfram.“ Einnig kemur fram að líkurnar á því að Skúla og félögum takist að endurreisa WOW Air eða stofna nýtt flugfélag minnki með hverjum deginum sem líður.

Fólk getur skráð nafn sitt, kennitölu og hlutafjárupphæð. Nýliðum í fjárfestingum er hins vegar ráðlagt að lofa ekki meira hlutafé en sem nemur einum fimmta af mánaðarlaunum. „En fyrirtæki og fagfjárfestar geta lagt fram loforð án takmarkana. Hlutafjárloforð eru bindandi í 90 daga.“

„Án komu almenningshlutafélags er er mjög líklegt að ekki verði til nýtt lággjaldaflugfélag,“ segir á síðunni. Með hverjum deginum sem líður muni fólkinu reynast erfiðara að endurreisa WOW Air. „Þar að [sic] leiðandi er nauðsynlegt að almenningur komi að stofnun almenningshlutafélags, sem gæti fjárfest í nýju flugfélagi.

Fram kemur að Icelandair geti ekki eitt fyllt upp í það skarð sem myndaðist þegar WOW fór í þrot. „Er því ljóst að samkeppnin hefur dvínað og hætta er á að flugsamgöngur komi til með að hækka verulega í verði, flugsætum að fækka og ferðamenn finni sér því aðra áfangastaði, sem hefur neikvæð áhrif á hagvöxt og nýgerða kjarasamninga.“