Hvíta húsið tilkynnti um átakið á fyrsta virkum degi nýs árs, nokkrum klukkustundum áður en forsetinn fundaði með fulltrúum sjálfstæðra kjötframleiðenda og fjölskyldufyrirtækja í greininni.

Biden stjórnin hefur áhyggjur því að óhófleg samþjöppun á bandarískum kjötmarkaði veiki aðfangakeðju matvæla og sé ein orsök mikilla verðhækkana. Í Financial Times greinir frá því að samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu ráði einungis fjögur fyrirtæki 85 prósentum nautakjötsmarkaðar í landinu, 70 prósentum af markaði fyrir svínakjöt og 54 prósentum markaðar fyrir fiðurfénað.

„Verð til bænda lækkar á sama tíma og bandarískir neytendur greiða hærra verð – verðhækkanir á nauta-, svína- og fuglakjöti eru nú helsta orsök hækkandi matarreiknings heimilanna,“ sagði í tilkynningu frá Hvíta húsinu. „Þegar of fá fyrirtæki ráða svo stórum hluta markaðarins verður matvælaaðfangakeðjan viðkvæm fyrir áföllum.“

Biden kynnti á mánudag fjárhagslega hvata, meðal annars styrki til að efla framleiðslugetu sjálfstæðra kjötframleiðenda og ráðstafanir til að auðvelda lánafyrirgreiðslu til minni kjötframleiðenda.

Í tilkynningunni frá Hvíta húsinu kom fram að forsetinn hygðist herða kröfur til kjötvara, sem sagðar væru framleiddar í Bandaríkjunum. Þetta kemur illa við stór framleiðslu- og pökkunarfyrirtæki sem reiða sig á innflutt kjöt. Þessar ráðstafanir geta leitt til ýfinga við útflytjendur kjöts til Bandaríkjanna sem kvarta gjarnan undan markaðshindrunum þar í landi.

„Samkvæmt núgildandi reglum má merkja kjöt sem bandaríska framleiðslu jafnvel þótt skepnurnar séu aldar erlendis og kjötið einungis flutt hingað til vinnslu og pakkað hér. Við teljum að þetta geri bandarískum neytendum erfitt fyrir við að átta sig á hvaða vöru þeir eru að fá,“ segir í tilkynningunni frá Hvíta húsinu.

Umbæturnar fela einnig í sér að bandaríska dómsmálaráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið munu koma á fót netgátt þar sem fólki gefst færi á að setja fram kvartanir og ábendingar um brot á samkeppnislögum í kjötiðnaðinum. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir verðsamráð í greininni. Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku hagstofunni var verð á kjöti 16 prósentum hærra í nóvember 2021 en í sama mánuði 2020, en vísitala neysluverðs hækkaði um 6,8 prósent á sama tímabili.