Ekki tókst að fá tilskilin leyfi til að fljúga einni af sex Boeing 737 MAX vél Icelandair til Toulouse í Frakklandi morgun eins og staðið hafði verið til.

„Við erum að vinna í því að fá leyfi. Það var stefnt á þessa viku og að fyrsta vélin færi í morgun, en það var ekki í höfn og því er stefnt á að reyna aftur seinna í vikunni,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Fréttablaðið.

Ásdís segir að flutningur vélanna sé háður ýmsum skilyrðum frá bæði flugöryggisstofnun Evrópu og flugmálayfirvöldum í þeim löndum sem flogið er frá og til.

„Það er verið að ganga frá því og við vonumst til þess að fljúga seinna í vikunni,“ segir Ásdís.

Vélunum verður öllum flogið á sama staðinn, en ekki öllum í einu.

„við erum bjartsýn á að þetta náist fljótlega,“ segir Ásdís að lokum.

Vélarnar hafa staðið óhreyfðar á Keflavíkurflugvelli frá því í mars. Alls létust um 350 manns í tveimur flugslysum slíkra véla sem varð til kyrrsetninga vélanna um allan heim.