Jeff Bezos kemur til með að stíga til hliðar sem for­stjóri Amazon en hann stofnaði fyrir­tækið og hefur verið for­stjóri fyrir­tækisins frá árinu 1995. Fyrir­tækið er nú metið á um 1,7 billjónir Banda­ríkja­dala og er Bezos sjálfur næst ríkasti maður heims í dag, á eftir Elon Musk.

„Það að vera for­stjóri Amazon er mikil á­byrgð, og það er tíma­frekt. Þegar þú berð þannig á­byrgð, þá er erfitt að gera eitt­hvað annað,“ sagði Bezos í bréfi til starfs­manna sem hann sendi út í gær.

Í bréfinu kemur fram að hann muni á þriðja árs­fjórðungi færa sig yfir í fram­kvæmda­stjóra­stöðu stjórnar­nefndar Amazon en hann mun þar ein­beita sér að vöru­þróun og frum­kvæðis­starf­semi. Andy Jassy mun taka við sem for­stjóri fyrir­tækisins.

„Andy er vel þekktur innan fyrir­tækisins og hefur verið hjá Amazon næstum eins lengi og ég. Hann verður fram­úr­skarandi leið­togi og hefur allt mitt traust,“ segir Bezos í bréfinu þar sem hann fer einnig yfir sigra fyrir­tækisins í gegnum tíðina.

Alls starfa um 1,3 milljónir manna hjá Amazon og telja við­skipta­vinir fyrir­tækisins hundruð milljóna alls staðar í heiminum. Fyrir­tækið hefur haldið á­fram að vaxa í gegnum far­aldur kóróna­veiru og hafa hluta­bréf Amazon hækkað um 69 prósent síðast­liðið ár.

„Þessi veg­ferð hófst fyrir ein­hverjum 27 árum. Amazon var að­eins hug­mynd, og hún átti sér ekkert nafn. Spurningin sem ég var oftast spurður á þeim tíma var, „Hvað er inter­netið?“ Blessunar­lega hef ég ekki þurft að út­skýra það lengi.“