Jeff Bezos kemur til með að stíga til hliðar sem forstjóri Amazon en hann stofnaði fyrirtækið og hefur verið forstjóri fyrirtækisins frá árinu 1995. Fyrirtækið er nú metið á um 1,7 billjónir Bandaríkjadala og er Bezos sjálfur næst ríkasti maður heims í dag, á eftir Elon Musk.
„Það að vera forstjóri Amazon er mikil ábyrgð, og það er tímafrekt. Þegar þú berð þannig ábyrgð, þá er erfitt að gera eitthvað annað,“ sagði Bezos í bréfi til starfsmanna sem hann sendi út í gær.
Í bréfinu kemur fram að hann muni á þriðja ársfjórðungi færa sig yfir í framkvæmdastjórastöðu stjórnarnefndar Amazon en hann mun þar einbeita sér að vöruþróun og frumkvæðisstarfsemi. Andy Jassy mun taka við sem forstjóri fyrirtækisins.
„Andy er vel þekktur innan fyrirtækisins og hefur verið hjá Amazon næstum eins lengi og ég. Hann verður framúrskarandi leiðtogi og hefur allt mitt traust,“ segir Bezos í bréfinu þar sem hann fer einnig yfir sigra fyrirtækisins í gegnum tíðina.
Alls starfa um 1,3 milljónir manna hjá Amazon og telja viðskiptavinir fyrirtækisins hundruð milljóna alls staðar í heiminum. Fyrirtækið hefur haldið áfram að vaxa í gegnum faraldur kórónaveiru og hafa hlutabréf Amazon hækkað um 69 prósent síðastliðið ár.
„Þessi vegferð hófst fyrir einhverjum 27 árum. Amazon var aðeins hugmynd, og hún átti sér ekkert nafn. Spurningin sem ég var oftast spurður á þeim tíma var, „Hvað er internetið?“ Blessunarlega hef ég ekki þurft að útskýra það lengi.“
Jeff Bezos is stepping down as CEO of Amazon. He'll transition to the role of Executive Chair.
— Kim Bhasin (@KimBhasin) February 2, 2021
Statement from Bezos here: pic.twitter.com/ECYdBjWeb5