Jeff Bezos, stofnandi Amazon og ríkasti maður í heimi, er nú metinn á 189 milljarða dollara en að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið jókst auður hans um þrettán milljarða á einum degi síðast­liðinn mánu­dag þegar hluta­bréf Amazon hækkuðu mest um átta prósent.

Bezos á í dag ellefu prósenta hlut í net­versluninni en hluta­bréf Amazon hafa rokið upp síðast­liðna mánuði vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins. Frá því í janúar hefur auður Bezos aukist um 74 milljarða dollara og er hann nú 71 milljarði ríkari en næst ríkasti maður heims, Bill Gates.

Gagnrýndur fyrir að græða á faraldrinum

Hjálpar­stofnunin Oxfam hefur gagn­rýnt það hversu mikið Bezos hefur hagnast á kóróna­veirufar­aldrinum á sama tíma og gífur­legur fjöldi fólks hefur misst vinnu sína og treystir á að­stoð yfir­valda.

Hlutabréf Amazon stóðu hæst í 3.197 dollurum á mánudaginn.
Skjáskot/Guardian

„Það er erfitt að koma þessari við­bjóðs­legu upp­hæð heim og saman við raun­veru­leikann sem við hin erum að upp­lifa,“ sagði Rebec­ca Gowland sem sér um ó­jöfnuðar stefnu Oxfam. „Það er í rauninni hneykslan­legt að ein manneskja, sem er nú þegar ó­trú­lega rík, hafi náð að græða 74 milljarða það sem af er ári.“

Bezos hefur enn fremur verið gagn­rýndur fyrir tak­mörkuð fram­lög til hjálpar­starfa en hann hét 100 milljónum dollara til stofnunar sem sér um matar­að­stoð á tímum far­aldursins. Gagn­rýn­endur voru fljótir að benda á að upp­hæðin væri að­eins 0,05 prósent af auði hans.

Oxfam hefur kallað eftir því að hval­reka­skattur sé settur á þá sem græða gífur­legar upp­hæðir á meðan far­aldrinum stendur til að fjár­magna upp­byggingu efna­hags­lífsins.