Innlent

Betur í stakk búinn til að bregðast við hagsveiflum

Ef það kæmi til samdráttar virðist aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins vera mjög góð að mati greiningardeildar Arion banka.

Erlent vinnuafl hefur aldrei verið hærra hlutfall af heildarvinnuafli. Fréttablaðið/Vilhelm

Svo virðist sem vinnumarkaðurinn sé til lengri tíma litið betur í stakk búinn en áður til þess að bregðast við hagsveiflum. Þetta er mat greiningardeildar Arion banka.

Í nýrri úttekt greiningardeildar bankans er bent á að síðustu ár hafi fólksflutningar endurspeglað hagsveifluna í síauknum mæli sem hafi haft sveiflujafnandi áhrif á vinnumarkaðinn. Í ljósi þess að hlutfall erlends vinnuafls af heildarvinnuafli í landinu hafi aldrei verið hærra ætti aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins þannig að vera góð.

Greinendur Arion banka benda einnig á að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 24 ára sé há í sögulegu samhengi sem bæti aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins enn frekar. Það skýrist af því að unga fólkið hafi tilhneigingu til þess að setjast á skólabekk þegar það kreppir að og dempi þannig höggið á vinnumarkaðinn.

Tekið er fram að atvinnuþátttaka ungs fólks hafi vaxið úr 66,5 prósentum árið 1991 í 81,8 prósent árið 2017 á meðan atvinnuþátttaka annarra aldurshópa hafi haldist stöðug.

Sé jafnframt litið til breytingar í háskólasókn fólks á aldrinum 20 til 24 ára megi glögglega sjá neikvæða fylgni á milli háskólasóknar og hagvaxtar. Þannig var mesta aukningin í háskólasókn árið 2009, að sögn greiningardeildarinnar, en hún fór svo lækkandi og hefur dregist saman síðustu ár. „Þetta bendir til að unga fólkið ferðist og fræðist með hagsveiflunni,“ segir í úttekt greiningardeildarinnar.

Niðurstaða sérfræðinga bankans er því sú að ef það kæmi til samdráttar virðist aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins vera mjög góð. „Unga fólkið myndi setjast í auknum mæli á skólabekk á meðan erlenda vinnuaflið myndi róa á önnur mið og dempa þannig höggið fyrir vinnumarkaðinn,“ segir greiningardeildin.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Þriggja milljarða söluhagnaður Origo vegna Tempo

Innlent

Hlutabréf í Eimskip og Kviku rjúka upp

Innlent

Meniga semur við þriðja stærsta banka Suð­austur-Asíu

Auglýsing

Nýjast

Upp­ljóstrarinn beinir spjótum að Deutsche Bank

Sjóvá sendir frá sér afkomuviðvörun

Kaup­verðið á GAMMA 2,4 milljarðar króna

Samkaup boðar breytingar

Gylfi hættir sem forstjóri Eimskips

Svipmynd: Mikilvægt að fyrirtækið sé rétt stillt af

Auglýsing