Flugfélagið PLAY flutti alls 36.669 farþega í aprílmánuði samanborið við 23.677 farþega í marsmánuði. Sætanýting í apríl var 72,4 prósent samanborið við 66,9 prósent í mars.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Í tilkynningunni kemur fram að bókunarstaða hafi aldrei verið eins sterk og á undanförnum vikum og gerir félagið ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram, sérstaklega með tilkomu tengiflugs yfir Atlantshafið. Þá kemur fram að 90,1 prósent flugferða PLAY hafi farið á réttum tíma.
Þáttaskil urðu í rekstri Play þann 20. apríl síðastliðinn þegar fyrsta áætlunarferðin var farin til Bandaríkjanna. Áfangastaðurinn var Baltimore/Washington International-flugvöllurinn en þangað flýgur félagið daglega.
Dublin bætist við leiðakerfi PLAY í apríl og í maí bætast við átta nýir áfangastaðir: Lissabon í Portúgal, Stafangur og Þrándheimur í Noregi, Malaga á Spáni, Prag í Tékklandi, Gautaborg í Svíþjóð, Boston í Bandaríkjunum og Brussel í Belgíu. PLAY verður því með 25 áfangastaði beggja vegna Atlantshafsins árið 2022.
Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY, tilkynningunni að félagið hafi fundið fyrir aukinni eftirspurn og frábærum viðtökum vegna nýrra áfangastaða á síðustu vikum og mánuðum.
„Eftir krefjandi vetur er gleðilegt að sjá aukna sætanýtingu og vaxandi farþegafjölda verða að veruleika. Við erum sannfærð um að þessi þróun komi til með að halda áfram enda er bókunarstaðan til framtíðar sterk, sérstaklega eftir að miðasala til Bandaríkjanna hófst en með því að flytja farþega yfir Atlantshafið eykst nýting á helstu áfangastaði okkar í evrópskum borgum. PLAY teymið hefur unnið sleitulaust að því markmiði að koma tengifluginu á koppinn og með nákvæmni og fagmennsku hefur okkur tekist að ná því markmiði,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, í tilkynningu fyrirtækisins.