Í ljósi betri afkomu Festar á fyrsta ársfjórðungi 2021 og áætlana stjórnvalda um framhald bólusetninga þá hafa stjórnendur hækkað EBITDA-spá um 400 milljónir króna í 7,9 til 8,3 milljarða króna.

Hagnaður Festar jókst úr 53 milljónum á fyrsta ársfjórðungi 2020 í 289 milljónir króna á sama tíma í ár. Tekjur jukust um ellefu prósent á milli ára og námu 20,9 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) jókst um 48 prósent á milli ára og var 1,5 milljarðar króna.

„Niðurstaða fyrsta ársfjórðungs er mjög ánægjuleg miðað við þær samkomutakmarkanir sem verið hafa og öll félög samstæðunnar bættu rekstur sinn samanborið við fyrsta ársfjórðung 2020,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri fyrirtækisins, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Nú hillir undir lokin á heimsfaraldrinum þar sem bólusetningar ganga betur og vonandi getum við farið að horfa til betri tíma um mitt ár og aukin umsvif. ELKO hefur verið að auka söluna í gegnum vefverslun og sýnir fyrirtækið mikla aðlögunarhæfni við mjög breyttar aðstæður. Krónan hefur verið leiðandi í að bjóða upp á aukin ferskleika og heilsusamlega valkosti sem viðskiptavinir hafa tekið vel. N1 hefur þurft að fækka starfsfólki vegna samkomutakmarkana en kaupin á Ísey skyrbar hafa aukið umsvif á þjónustustöðvum félagsins,“ segir hann.