Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir tók nýverið við sem sölustjóri Billboard, sem rekur meðal annars þrett­án LED-skjái staðsetta víða um land. Hún er formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur og hóf nýverið kajaksiglingar. Hún segir mikil tækifæri í útimiðlum og að þeir muni verða æ veigameiri í birtingu auglýsinga.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég elska hreyfingu, útiveru og fjölskylduna. Ég hjóla mikið og hef gert undanfarin ár og er formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Ég hleyp líka, stunda sjósund, geng á fjöll, er á fjallaskíðum og gönguskíðum. Bætti svo við nýju áhugamáli í sumar, kajak. Það er einstakt að sigla á fallegu vatni eða fjörðum við Íslandsstrendur og upplifa hafið og náttúruna. Fylgjast með hvölum og selum nálægt sér, kríunni stinga sér í sjóinn við bátinn og það hversu kröftugur sjórinn er. Hver árstími hefur sinn sjarma og það er dásemd að nálgast náttúruna á mismunandi hátt.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Venjulega vakna ég 05.10, gríp mér kaffi og fer upp í Veggsport þar sem ég stýri hjólatíma sem byrjar klukkan 6.00. Er svo mætt í vinnu klukkan 8.00.

Núna þegar allt er lokað þá eru það tveir bollar af kaffi í rúmið og huggulegt spjall með kæró. Veit ekki alveg hvernig skiptin yfir í hjólið fara í mann aftur fyrstu vikuna þar sem það er vel hægt að venjast svona huggulegheitum. En að mæta í vinnu eftir átök morgunsins er einstaklega nærandi.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Já og nei. Ég elska að ná árangri hvort sem það er í vinnu eða áhugamálum. Ég hef mikið af áhugamálum og næ að sinna þeim vel í frítíma sem og fjölskyldunni. Börnin stunda sumt af því með mér en venjulega hittumst við alltaf heima í kvöldmat á sunnudögum. Ég hef mikið keppnisskap sem skilar sér í því að það er alltaf stutt í vinnuna og bestu hugmyndirnar fæðast oft þar sem maður er úti í náttúrunni eða í biluðum átökum á hjólinu einhvers staðar. Það hefur ekki truflað okkur þar sem frítíminn er hlaðinn spennandi verkefnum.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Rekstur söludeildar Frjálsrar fjölmiðlunar var krefjandi og skemmtilegt verkefni sem var mjög lærdómsríkt. Hjólreiðafélag Reykjavíkur heldur eitt stærsta fjallahjólamótið, Bluelagoon challenge. Þetta er stærsta og eitt skemmtilegasta fjallahjólamót sem haldið er ár hvert með um 800 keppendum sem endar í huggulegheitum í Bláa lóninu. Það er mikið starf sem fer í að skipuleggja það og tryggja öryggi keppenda og nær það yfir nokkurra mánaða tímabil. Í ár þurfti að fella niður mótið vegna samkomutakmarkana en um 800 manns voru skráð í mótið. Það er miður að þurfa að fella niður stærstu fjáröflun félagsins þar sem hagnaður mótsins fer allur í að reka barna- og unglingastarfið.

Hver er helstu verkefnin fram undan?

Kynnast nýju fólki á nýjum stað, það eru mikil tækifæri í útimiðlum og mjög spennandi tímar fram undan við að kynna það. Útimiðlar taka við af prenti sem sá miðill sem hefur mestu þyngd í dekkun innan dagsins á íslenskum auglýsingamarkaði. Uppbygging vörumerkjavitundar er nauðsynlegur hluti markaðsstarfs hvers fyrirtækis og með minnkandi blaðalestri eru útimiðlar orðnir enn mikilvægari þáttur í þessari uppbyggingu. Útimiðlar bjóða upp á möguleika sem ekki er hægt að ná fram í öðrum miðlum. Hægt er að sníða auglýsingarnar að mismunandi hverfum og markhópum og vera með margvísleg skilaboð innan dags. Útimiðlar hafa alltaf verið mikilvægir í markaðsstarfi stórra vörumerkja erlendis og eru núna orðnir raunverulegur valkostur fyrir íslensk fyrirtæki.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Fyrsta vinnan mín var að selja heimatilbúnar karamellur og popp á smíðó til að eiga fyrir nöglum í kofann okkar systkina sem við vorum að smíða þegar ég var 8 ára. Annar starfsframi væri alltaf sölutengdur þar sem ástríðan mín liggur þar.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Ég verð í sölustýringu í góðum hópi fólks sem elskar að skara fram úr og ég hef tekið miklum framförum á skíðum.

Hvers hlakkarðu mest til þessa dagana?

Ég verð að fá að nefna fleiri en einn hlut, það er svo margt sem er spennandi í lífinu. Ég er gríðarlega spennt fyrir starfinu mínu hér hjá Billboard. Fá að þróa söluna áfram hér og sjá starfsfólkið og miðilinn vaxa og blómstra áfram. Í haust erum við búin að vera að vinna í garðinum, helluleggja, smíða, og ég get ekki beðið eftir því að komast út í garð og halda áfram. Vera með börnunum mínum, tengda- og stjúpbörnum, borða góðan mat og eiga yndislegan tíma með þeim.

Svo verð ég að viðurkenna að ég fékk pínu í hnén þegar Esjan hvítnaði um daginn. Styttist í skíðatímabilið og það er mikil tilhlökkun í því.

Hvers konar stjórnunarstíl hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?

Styðja við starfsfólkið þannig að það nái framúrskarandi árangri í sínum störfum er það sem fær mig til að mæta í vinnu á hverjum degi. Að fólk fái að hafa frumkvæði og nái að vaxa sem einstaklingar í starfinu.