Great Place To Work er alþjóðleg stofnun um vinnustaðamenningu en þetta er í þriðja sinn sem GPTW gefur út topplista yfir bestu fyrirtæki landsins.

,,DHL Express hefur verið að taka þátt í Great Place to Work á heimsvísu undanfarin ár, en þetta er í fyrsta skiptið sem við tökum þátt hér á landi.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem fyrirtæki að fá óháð rannsóknar- og ráðgjafafyrirtæki til að gera úttekt á ferlum og vinnustaðamenningunni hjá okkur og hversu vel okkur hefur tekist til við að skapa jákvætt vinnuumhverfi sem laðar að hæfasta starfsfólkið. Með þessari könnun náum við að fanga rödd starfsmanna enn betur sem gerir okkur kleift að hlúa mun betur að okkar fólki. Þegar fólki líður vel gengur bæði fyrirtækið og samfélagið vel," segir Alfa Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri DHL Express á Íslandi.

Starfsfólk Sahara.

Sahara opnaði nýverið skrifstofu í Orlando, Florida og segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara, það hafa verið afar mikilvægt fyrir fyrirtækið að vera með alþjóðlega vottun eins og GPTW þegar verið er að kynna fyrirtæki á nýjum markaði. ,,Fyrirtæki á svæðinu, stór erlendar vörumerkjakeðjur eru vottaðar af GPTW og því ákveðinn gæðastimpill og eykur traust gagnvart fyrirtækinu. GPTW vottunin hefur einnig hjálpar okkur hérna heima þegar við erum að auglýsa eftir starfsfólki og við kynningu á fyrirtækinu almennt," segir Davíð.

Starfsfólk Byko.

,,Viðurkenningin gefur okkur byr undir báða vængi að við séum á réttri leið í framtíðarsýn okkar og styður vel við að skapa bestu heildarupplifun starfsfólks af BYKO sem vinnustað. Við trúum því að fjölbreyttur hópur starfsfólks dragi fram ólík sjónarhorn sem leiði af sér bestu niðurstöðuna. Jafnframt vonumst við til þess að með góðu fordæmi getum við einnig haft áhrif á framþróun jafnréttis- og fjölbreytileikamála innan byggingariðnaðarins," segir Svanborg Hafliðadóttir, mannauðsstjóri BYKO.

Starfsfólk CCP.

Gunnar Haugen hjá CCP segir það skipta miklu máli fyrir erlent starfsfólk að sjá þekkta alþjóðlega vottun fyrir því að CCP Games á Íslandi sé svo sannarlega góður vinnustaður. ,,Við vildum fá góða mælingu á líðan starfsfólks sem styddi við gildin okkar og áherslur á traust."