Besti veitingastaður í heimi er í Kaupmannahöfn. Staðurinn ber nafnið Geranium og er með þrjár Michelin stjörnur, að því er fram kemur í umfjöllun danska ríkisútvarpsins um málið.
Þar kemur fram að staðurinn hafi hlotið nafnbótina í gærkvöldi en þetta var ákveðið af World's Best Restaurant Academy. Um er að ræða nefnd 1080 sælkera, meðal annars kokka og matargagnrýnenda.
Nefndin birti í gær lista yfir fimmtíu veitingahús sem talin eru öðrum fremri í heiminum. Þar má sjá ýmis veitingahús hvaðanæva úr heiminum en í öðru sæti er veitingahúsið Central í Lima í Perú og í því þriðja veitingahúsið Disfrutar í Barselóna.
Danir eiga tvo aðra veitingastaði á listanum, Alchemist í 18. sæti og veitingahúsið Down to earth í því 38. Íslendingar eiga ekkert veitingahús á listanum.
Geranium er á áttundu hæð á fótboltavelli og með útsýni yfir Fælledparken í Kaupmannahöfn. Matseðillinn breytist eftir árstíðum og er veitingagestum boðið upp á tuttugu mismunandi rétti auk forrétta og eftirrétta en Rasmus Kofoed og Sören Ledet eiga og reka veitingahúsið saman.
Listann yfir fimmtíu bestu veitingahús veraldar má sjá hér.