Besti veitinga­staður í heimi er í Kaup­manna­höfn. Staðurinn ber nafnið Geranium og er með þrjár Michelin stjörnur, að því er fram kemur í um­fjöllun danska ríkis­út­varpsins um málið.

Þar kemur fram að staðurinn hafi hlotið nafn­bótina í gær­kvöldi en þetta var á­kveðið af World's Best Re­staurant A­cademy. Um er að ræða nefnd 1080 sæl­kera, meðal annars kokka og matar­gagn­rýn­enda.

Nefndin birti í gær lista yfir fimm­tíu veitinga­hús sem talin eru öðrum fremri í heiminum. Þar má sjá ýmis veitinga­hús hvaða­næva úr heiminum en í öðru sæti er veitinga­húsið Central í Lima í Perú og í því þriðja veitinga­húsið Dis­frutar í Bar­selóna.

Danir eiga tvo aðra veitinga­staði á listanum, Alchemist í 18. sæti og veitinga­húsið Down to earth í því 38. Ís­lendingar eiga ekkert veitinga­hús á listanum.

Geranium er á áttundu hæð á fótboltavelli og með út­sýni yfir Fæl­led­par­ken í Kaup­manna­höfn. Mat­seðillinn breytist eftir árs­tíðum og er veitinga­gestum boðið upp á tuttugu mis­munandi rétti auk for­rétta og eftir­rétta en Rasmus Kofoed og Sören Ledet eiga og reka veitinga­húsið saman.

Listann yfir fimm­tíu bestu veitinga­hús veraldar má sjá hér.