Jón von Tetzchner, forstjóri og stofnandi Vivaldi, segir að frá upphafi hafi hann lagt áherslu á persónuvernd Vivaldi-vafrans. „Við berjumst gegn því njósnasamfélagi sem ríkir á netinu. Það er rangt að fyrirtæki geti njósnað um notendur sína.“

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 í kvöld, en Jón von Tetzchner er gestur Jóns.

„Þjóðfélagið á að vera þannig að það sé ekki verið að njósna um notendur meðan þeir eru á netinu. Það er mjög mikilvægt að fólk skilji hvað sé í gangi. Það er verið að safna gögnum um okkur. Þessi gögn eru nýtt og þau eru seld; þessar upplýsingar ganga kaupum og sölum. Í þeim kemur meðal annars fram hvað þú hefur verið að skoða; hvað þú hefur keypt; hvar þú hefur verið; ferðir þínar eru raktar, þar sem allir eru ætíð með símann á sér, og það er hægt að rekja ferðir þínar innan bygginga. Þetta er njósnakerfi sem líkist 1984 en er með háþróaðri tölvutækni nútímans. Það situr ekki einhver ein manneskja einhvers staðar og fylgist nákvæmlega með þér heldur eru þetta tölvur sem safna öllum þessum gögnum saman,“ segir Jón von Tetzchner.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.