Stjórn Icelandair Group skrifaði í dag undir kaupsamning við Berjaya Property Ireland Limited (Berjaya). Viðskiptin munu ganga í gegn í árslok 2019 en þá mun Beraya eiga 75 prósent í félaginu og mun Icelandair Group halda 25 prósentum. Berjaya félagið er stofnað af malasíska auðkýfingnum Vincent Tan.
Heildarvirði Icelandair Hotels og tengdra fasteigna eru 136 milljónir Bandaríkjadala eða yfir 21 milljarð íslenskra króna.
Forstjórinn ánægður með samninginn
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group segir fyrirtækið ætla að leggja áherslu á kjarnarstarfsemi sína, flugreksturinn, og fagnar því aðkomu alþjóðlegs fjárfesta. „Kaup Berjaya á Icelandair Hotels eru í senn staðfesting á gæðum og virði félagsins og björtum framtíðarhorfum íslenskrar ferðaþjónustu.“
Bogi þakkar samstarfsfólki sínu einnig fyrir vel unnin störf á síðustu misserum. „Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka stjórnendum og starfsfólki Icelandair Hotels fyrir þeirra framúrskarandi starf við þróun og uppbyggingu öflugs hótelfélags sem hefur mikla þýðingu og virði fyrir íslenska ferðaþjónustu.“
Icelandair Hotels bætist við 19 hótel Berjaya
Berjaya er fyrirtæki sem skráð er á verðbréfamarkað í Malasíu og hefur á sínum snærum fjölda fyrirtækja meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Fjöldi starfsmanna Beryaja og tengdra félaga er yfir fjögur þúsund en árlegar tekjur félagsins eru í kringum 1.6 milljarður Bandaríkjadala.
Stjórnarformaður Berjaya Group Berhad, Vincent Tan, segir Icelandair Hotels vera öfluga viðbót við þau 19 hótel sem fyrirtækjasamstæðan rekur nú þegar. „Við hlökkum til þess að vinna með nýjum samstarfsaðila okkar að frekari vexti og viðgangi Icelandair Hotels“ bætir hann við.
Auðkýfingurinn sem á Cardiff
Vincent Tan hefur vakið athygli fyrir kaup sín á velska knattspyrnuliðinu Cardiff sem leikur í ensku úrvalsdeildinni. Fyrirliði íslenska landsliðsins, Aron Einar Gunnarsson, hefur leikið með félaginu undanfarin átta ár en leitar á ný mið í sumar. Tan lætur sig sjaldan vanta á leiki liðsins.