Í tilkynningu frá Orkunni segir að rekin verið bensínstöð á þessum stað í Fellsmúla allt frá árinu 1971 en það séu yfirvofandi orkuskipti og loftslagsstefna Reykjavíkurborgar, sem kveði á fækkun bensínstöðva, ásamt framtíðarstefnumörkun og vistvænum áherslum Orkunnar sem leitt havi til þessarar ákvörðunar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Vífill Ingimarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar, og Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Orku náttúrunnar, undirrituðu samkomulag þessa efnis í dag.

Vífill Ingimarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar: „Sú mikla ánægja sem hefur verið með hleðslustöðvarnar á stöðvum Orkunnar er okkur hvatning til að halda áfram á þessari braut. Við vitum að rafbílum fjölgar nú hratt, þeir voru meira en helmingur seldra bíla á síðasta ári. Þetta þýðir að fjölga þarf hleðslustöðvum og Orkustöðvarnar eru vel staðsettar nærri stofnbrautum og því vinsælar hjá ökumönnum.

Borgin hefur kynnt áherslur sínar um að fækka bensínstöðvum innan borgarmarkanna og sú stefna fer vel saman við okkar áætlanir um að vera lykilaðili í orkuskiptunum, í samvinnu við ON. Ég vil þakka þeim og Reykjavíkurborg fyrir gott samstarf í þessu verkefni.“

Orkan hefur nú þegar fækkað um eina dælu á stöðinni í Fellsmúla og er þar nú aðeins ein dæla sem getur dælt eldsneyti í tvo bíla samtímis.

Orkan mun halda áfram að þróa þjónustunet sitt á höfuðborgarsvæðinu og verður ný Orkustöð tekin í gagnið við Lambhagaveg í Úlfarsárdal á næstu tveimur árum samhliða breytingunni í Fellsmúla.

Samstarf Orkunnar og Orku náttúrunnar hófst árið 2017. Í dag má finna hleðslustöðvar frá ON á átta Orkustöðvum, þrjár í Reykjavík og fimm á landsbyggðinni en stefnt er að fjölgun þeirra samhliða orkuskiptum bílaflotans.

„Við hjá Orku náttúrunnar fögnum auðvitað þeirri þróun að bensínstöðvum sé að fækka og hleðslustöðvum að fjölga. ON hefur verið leiðandi í orkuskiptunum allt frá því að við settum upp fyrstu hleðslustöðina hér á landi og þetta er rökrétt skref á þeirri vegferð. Við höfum átt gott samstarf við Orkuna og vonandi mun þessi þróun halda áfram.“ segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Orku náttúrunnar.

„Ég er mjög ánægður með þessa þróun. Hér eru að koma hleðslustöðvar fyrir rafbíla í stað jarðefnaeldsneytis. Með þessu erum við að færast nær grænni framtíð. Borgin beitir samningum og grænum hvötum til að ná markmiðum í loftslagsmálum og þéttingu byggðar sem þýðir að íbúðahverfin eflast og lífsgæði íbúanna batna,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.