Benoit Chéron, sem hefur undanfarið aðstoðað fjármálafyrirtæki í ábyrgum fjárfestingum, hefur hafið störf á ráðgjafarsviði KPMG þar sem hann mun þróa þjónustu sem tengist sjálfbærni og jafnframt veita ráðgjöf á sviði ábyrgra fjárfestinga, áhættustýringar og innri endurskoðunar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KPMG.

Benoit er franskur og sótti sína menntun í Dauphine University í París þaðan sem hann lauk meistaragráðu. Árið 2018 ákváðu hann og konan hans að breyta til, eftir því sem fram kemur í tilkynningunni, og flytja til Íslands vegna mikils áhuga á landi og þjóð. Þau fluttu búferlum til Íslands ásamt þremur börnum sínum eftir að hafa búið í sextán ár í Lúxemborg og París.

Áður en Benoit hóf störf hjá KPMG stofnaði hann fyrirtækið X.FIN, fjármála- og fyrirtækjaráðgjöf og aðstoðaði fjármálastofnanir og -fyrirtæki í ábyrgum fjárfestingum og skýrslugjöf samkvæmt UFS (e. ESG).

Í Lúxemborg starfaði Benoit meðal annars sem fjármálastjóri og einn af eigendum idi Emerging Markets, fjármálafyrirtæki sem sérhæfir sig í framtaksfjárfestingum á nýjum mörkuðum. Hann starfaði einnig sem yfirmaður skrifstofu PAI Partners, leiðandi fjármálafyrirtækis á evrópskum markaði í framtaksfjárfestingum, í Lúxemborg.

Benoit var stjórnarmaður í félagi framtaks- og áhættufjárfestinga í Lúxemborg og formaður í reikningshalds- og matsnefnd félagsins í sjö ár.