Alvotech hefur ráðið Benedikt Stefánsson í stöðu forstöðumanns fjárfesta- og almannatengsla. Benedikt verður ábyrgur fyrir fjárfestatengslum Alvotech á Íslandi og samskiptamálum alþjóðlega. Alvotech sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja og undirbýr nú skráningu á NASDAQ hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum og First North á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Benedikt var áður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Carbon Recycling International, sem vinnur að lausnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar áður starfaði hann við viðskiptaþróun og síðar sem yfirmaður sölu- og markaðsmála fyrir Íslenska erfðagreiningu. Benedikt hefur einnig unnið sem blaðamaður og á fjármálamarkaði auk þess að hafa gegnt stöðu aðstoðarmanns efnahagsráðherra.

Benedikt er með C.Phil. og MA gráðu í hagfræði frá University of California, Los Angeles (UCLA) og B.S. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár verið formaður stjórnar Grænu orkunnar og setið í stjórn alþjóðlegra samtaka hagsmunaðila á sviði kolefnisendurvinnslu, CO2 Value EU. Benedikt er giftur Björgu Kjartansdóttur, sviðsstjóra fjáröflunar- og kynningarmála Rauða krossins á Íslandi, og eiga þau þrjá syni.