Stjórn Arion banka hefur ráðið Benedikt Gíslason í starf bankastjóra og mun hann hefja störf 1. júlí næstkomandi. Benedikt tekur við starfinu af Höskuldi H. Ólafssyni sem lét af störfum í lok apríl fyrr á árinu eftir níu ára starf sem æðsti yfirmaður bankans. Stefán Pétursson hefur verið starfandi bankastjóri síðan þá.

Benedikt hóf störf hjá FBA (síðar Íslandsbanka) árið 1998, sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás, var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka.

Benedikt var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann sat í stjórn Kaupþings á árunum 2016-2018. Benedikt hefur verið ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka og hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2018. Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Íslands.

Benedikt segist fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnið.

„Ég þekki bankann vel og hlakka til kynnast honum og hans öfluga starfsfólki enn betur. Verkefnið framundan er að halda áfram að þróa starfsemi og þjónustu bankans og veita viðskiptavinum góða og nútímalega fjármálaþjónustu,“ segir hann og bætir við að bankinn njóti ákveðinnar sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði þegar horft er til stóru bankanna þriggja sem almenningshlutafélag sem skráð er í kauphallir á Íslandi og í Svíþjóð.

Fjárfestingar Arion banka í ákveðnum verkefnum á undanförnum árum hafa gengið misvel en bankinn hefur til að mynda tapað nokkuð stórt á fjárfestingum sínum í United Silicon, Primera Air og nú síðast WOW air. Öll félögin voru tekin til gjaldþrotaskipta.

Bankinn sendi frá sér afkomuviðvörun í nóvember 2017 vegna stöðu United Silicon og þá var greint frá því undir lok síðasta sumars að tap bankans vegna Primera væri talsvert. Í tilkynningu frá bankanum fyrr á þessu ári sagði að gjaldþrot WOW air hefði „ekki veruleg bein áhrif“ á afkomuna.

Fréttin hefur verið uppfærð.