Breska flugfélagið Jet2.com og ferðaskrifstofan Jet2CityBreaks ætla að bjóða upp á flug og borgarferðir frá Manchester á Englandi til Íslands sumarið 2022. Boðið verður upp á flugferðir milli Keflavíkurflugvallar og Manchester-flugvallar á mánudögum og fimmtudögum frá apríl til október á næsta ári.

Hægt verður að kaupa stakt flugfar með Jet2.com eða pakkaferð til Íslands með Jet2City Break. Félagið hóf flug til Íslands árið 2019.

„Við vitum að það er mikil eftirspurn eftir flugi og borgarferðum til Íslands frá viðskiptavinum okkar. Það er okkur mikið gleðiefni að geta boðið upp á flug og borgarferðir fyrir sumarið 2022 frá Manchester-flugvelli. Það er mikil uppsöfnuð eftirspurn og við vitum að flug- og borgarferðir okkar verða vinsælar,“ segir Steve Heapy, forstjóri Jet2.com og Jet2holidays í tilkynningu.

„Við á Keflavíkurflugvelli erum einkar ánægð með að góðir samstarfsaðilar okkar hjá Jet2.com hafi ákveðið að framlengja vetraráætlun sína inn í sumarið. Tilkynning um nýja flugleið frá Manchester til Íslands sumarið 2022 á þessum óvissutímum eykur trú okkar á að ferðaþjónustan muni vaxa á ný og sýnir einnig að Jet2.com hefur trú á markaðnum á Íslandi,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia.