Bankasýsla ríkisins hefur gengið til samninga við íslensku lögmannsstofuna BBA Fjeldco og alþjóðlegu lögmannsstofuna White & Case um að vera lögfræðiráðgjafar í tengslum við sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað.

Bankasýslan leitaðist eftir því í byrjun febrúar að ráða sameiginlega annars vegar ráðgjafa með sérþekkingu á íslenskum lögum, meðal annars varðandi almennt útboð og skráningu hluta á verðbréfamarkað, og hins vegar ráðgjafa með sérþekkingu á alþjóðlegum lögum.Sex innlendar lögmannsstofur, meðal annars einnig LEX og LOGOS, sóttust eftir ráðgjafahlutverkinu.

Lögmannsstofan White & Case, sem Bankasýslan hefur nú ráðið sem alþjóðlegan lögfræðiráðgjafa við söluferlið, var sömuleiðis ráðgjafi við hlutafjárútboð og skráningu Arion banka á markað á árinu 2018 þegar seldur var nærri 30 prósenta hlutur í bankanum fyrir um 40 milljarða króna.

Áformað er að selja á bilinu 25 til 35 prósenta hlut í Íslandsbanka í gegnum útboð og skráningu á markað um mitt þetta ár. Bókfært eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum í árslok 2020.

Kynningarfundir með innlendum fjárfestum, meðal annars lífeyrissjóðum og sjóðastýringarfyrirtækjum, hófust í byrjun þessarar viku.

Búið er nú að ganga frá ráðningum í flest ráðgjafahlutverk í tengslum við söluferlið á bankanum. Hollenski bankinn ABN Amro er stjórnendum Íslandsbanka til ráðgjafar við söluna. Bankasýslan, sem heldur utan um eignarhlut ríkisins í bankanum, réð hins vegar STJ Advisors sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna hlutafjárútboðsins auk þess sem Citigroup, JP Morgan og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru ráðnir sem leiðandi umsjónaraðilar og söluráðgjafar.

Þá var Bretinn Michael Ridley, sem starfaði um langt skeið hjá fjárfestingabankanum JP Morgan, fenginn sem ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Bankasýslan er um þessar mundir, samkvæmt heimildum Markaðarins, að ljúka ráðningum á nokkrum innlendum aðstoðar söluráðgjöfum, bæði bönkum og verðbréfafyrirtækjum, vegna sölunnar á Íslandsbanka.