Rekstrarhagnaður Íslenska gámafélagsins fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði, jókst um ríflega 93 milljónir króna á síðasta ári og nam tæplega 389 milljónum króna. Um er að ræða aukningu upp á 31,5 prósent. Tekjur félagsins jukust um 6 prósent á síðasta ári og námu rúmlega fimm milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

„Árið gekk allt saman samkvæmt áætlun og ekkert sem kom á óvart,“ segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri félagsins í samtali við Markaðinn. Jón nefnir að endurnýjun tækjaflota félagsins á liðnum árum hafi skilað lægri kostnaði. Hlutfall rekstrarhagnaðar af tekjum var 7,7 prósent á síðasta ári, en stefnt er að því að það hlutfall verði 16 prósent á yfirstandandi ári.


Hlutabætur í apríl og maí


Engar arðgreiðslur eru ráðgerðar fyrir síðasta rekstrarár, vegna tekjusamdráttar sem tengist COVID-farsóttinni. „Til skemmri tíma var brugðist við með því að setja 85 starfsmenn á hlutabótaleiðina og fækka um sex stöðugildi. Hlutabótaleiðin var einungis notuð í apríl og maí, en í kjölfarið verður farið í endurskipulagningu á einstökum deildum til að lækka kostnað og mjög fáir ráðnir í sumarafleysingar," segir í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Þrátt fyrir stórbættan rekstrarhagnað, varð 90 milljóna viðsnúningur í fjármagnsgjöldum dótturfélagsins Vélamiðstöðvarinnar til þess að endanlegur hagnaður ársins hækkaði um 4,6%.

Jón Þórir segir að breyting á verðskrá Vélamiðstöðvarinnar gagnvart móðurfélaginu hafi orsakað þessa ákveðnu sveiflu: „Við leiðréttum verðskrá fyrirtækisins gagnvart gámafélaginu, þar sem við vildum að eðlileg ávöxtun væri á eignum Vélamiðstöðvarinnar.“


Seldu helming til Hvals


Stofnendur Íslenska gámafélagsins, þeir Jón Þórir og Ólafur Thordersen, keyptu til baka allan rekstur fyrirtækisins á síðari hluta árs 2018, en seljandi var fagfjárfestasjóðurinn Auður I. Kaupverð var trúnaðarmál.

Þeir Jón Þórir og Ólafur seldu svo helming í Íslenska gámafélaginu til fjárfestingafélagsins Hvals fyrir skemmstu, en greint var frá viðskiptunum í Markaðnum þann 29. júní síðastliðinn. Jón Þórir segir að kaup Hvals séu nú að fullu gengin í gegn. Heildareignir Íslenska gámafélagsins námu tæplega 4,8 milljörðum króna við árslok og eigið fé 1,74 milljörðum