Bandaríska verslanakeðjan Barneys New York hefur óskað eftir greiðslustöðvun og auglýst eftir kaupendum að fyrirtækinu. Fyrri tilraunir til að selja fyrirtækið hafa ekki borið árangur en Barneys hefur glímt við hækkandi leiguverð á verslunarhúsnæði.

Greiðslustöðvunin, (e. chapter 11) gerir fyrirtækinu kleift að fresta greiðslum af lánum og endurskipuleggja reksturinn. Barneys hefur nú þegar tryggt sér 75 milljóna dala fjármögnun frá Hilco Global og Gordon Brothers Group til að halda rekstrinum gangandi, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

Verslunum Barneys í Chicaco, Las Vegas og Seattle verður lokað ásamt fimm smærri verslunum og sjö Barneys Warehouse. Hins vegar verður stærstu verslunum keðjunnar í New York, San Fransisco, Beverly Hills og Boston haldið opnum.

Ein af ástæðunum fyrir fjárhagsvandræðum Barneys er veruleg hækkun á leigu fyrir verslunarhúsnæðið á Madison Avenue í New York en hún hækkaði úr 16 milljónum dala í 30 milljónir.

„Eins og mörg fyrirtæki í atvinnugreininni hefur krefjandi rekstrarumhverfi og leiguverð, sem er yfirgengilega hátt miðað við eftirspurn á markaðinum haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu Barneys New York,“ sagði Daniella Vitale, forstjóri Barneys.