Ríkisstjórn Tyrklands hefur lagt bann við notkun erlendra gjaldmiðla í fasteignaviðskiptum þar í landi. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gaf í dag út tilskipun þess efnis að samingar er varða fasteignakaup og leigu verði framvegis að vera í lírum, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá. Hann hefur áður hvatt Tyrki til þess að selja Bandaríkjadali og evrur.

Útlendingum sem búa í Tyrklandi er oft boðið að hafa samninga af þessu tagi í evrum eða dölum. Samkvæmt tilskipun Erdogans þarf hins vegar að breyta öllum þessum samningum innan 30 daga.

Erdogan sagði í ræðu í dag að enginn í Tyrklandi ætti að stunda viðskipti í erlendum gjaldmiðlum nema þeir sem starfa í útflutnings- og innflutningsgeiranum.

Seðlabanki Tyrklands hækki stýrivexti í dag í því skyni að koma í veg fyrir frekara gengisfall tyrknesku lírunnar. Líran hefur glatað allt að þriðjungi af verðgildi sínu miðað við Bandaríkjadal frá því í janúar.