Bankasýsla ríkisins hefur ráðið STJ Advisors Group Limited sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna alþjóðlegs frumútboðs á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Sjö aðilar gáfu kost á sér með áhugayfirlýsingum til að verða sjálfstæður fjármálaráðgjafi.

Í tilkynningu á vef Bankasýslunnar segir að STJ, sem hefur þegar hafið störf, sé einn af leiðandi sjálfstæðum ráðgjöfum á sviði útboða á hlutabréfum í Evrópu. STJ Advisors var til að mynda fjármálaráðgjafi Marel í tengslum við útboðið og skráninguna í Euronext-kauphöllina.

Meðal erlendra fyrirtækja sem vildu gegna hlutverki fjármálaráðgjafa eða söluráðgjafa við söluferlið voru Goldman Sachs, JP Morgan, Deutsche Bank og Rotschild Nordic. Fjöldi norrænna fyrirtækja var einnig meðal umsækjenda, svo sem ABG Sundall Collier, Swedbank og Nordea.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt til við fjármálaráðherra að á bilinu 25 til 35 prósent af hlutafé Íslandsbanka verði seld fyrst um sinn í almennu hlutafjárútboði.