Tilkynningin hljóðar svo:

„Í fjölmiðlum hafa komið fram sjónarmið þess efnis að fyrirkomulag við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi verið í andstöðu við lög. Af því tilefni skal áréttað að við sölumeðferðina var ákvæðum laga fylgt í hvívetna, þar með talið laga nr. 155/2012. Bankasýsla ríkisins vísar á bug hvers kyns sjónarmiðum um annað.“

Margvísleg gagnrýni hefur komið fram á fyrirkomulag sölu hlutar ríkisins í útboðinu. Gagnrýnt hefur verið að faðir fjármálaráðherra skyldi kaupa hluti í útboðinu og hefur fjármálaráðherra viðurkennt að hann hefði átt að gæta þess að svo yrði ekki.

Þá hefur komið fram hörð gagnrýni á að sjóðir á vegum umsjónaraðila útboðsins og starfsmenn þeirra skuli hafa verið meðal kaupenda.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, og Lárus Blöndal, stjórnarformaður, mæta fyrir þingnefnd á mánudag á opnum fundi til að sitja fyrir svörum.