Bankasýsla ríkisins hefur auglýst eftir ráðgjöfum í tengslum við sölumeðferð á eignarhlutum ríkissins í Íslandsbanka. Þetta kemur fram í frétt á vef Bankasýslunnar en stofnunin áætlar að ráða einn sjálfstæðan fjármálaráðgjafa og einn eða fleiri söluráðgjafa fyrir söluferlið.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur tilkynnt Bankasýslunni ákvörðun sína um að hefja sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Stofnunin hefur umsjón með eignarhlutum ríkisins í viðskiptabönkunum.

Um er að ræða sölu á 25 til 35 prósent eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka í almennu opnu útboði. Er ráðherra vongóður að söluandvirði bankans í heild gæti dekkað 119 milljarða króna fjárfestingaráætlun ríkisins í innviðum á næstu árum.

„Bankinn er í ágætri stöðu núna til kynningar til fjárfesta. Bankinn er í stöðugum vexti,“ sagði Bjarni á hádegisfundi efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins í gær.

„Við getum ekki gert ráð fyrir að stórar arðgreiðslur haldi áfram,“ bætti hann við. Stórar arðgreiðslur síðustu ára hafi byggst mest á virðisbreytingum en ekki reglulegum rekstri.