Bankasýsla ríkisins hefur lagt fram minnisblað til fjármálaráðherra um að eignarhlutur ríkisins í bankanum verður seldur að hluta. Þetta kemur fram á vefsíðu Bankasýslunnar.

Bankasýslan lagði til að 20 prósent af hlutafé Íslandsbanka hið minnsta yrðu seld til fjárfesta í þeim tillögum sem lagðar voru fram af stofnuninni þann 4.mars síðastliðinn. Sökum þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hafði á fjármálamarkaði féll Bankasýslan hins vegar frá þeim tilllögum sínum skömmu síðar.

Frá því að tillögurnar voru dregnar til baka, hefur þróun bæði fjármálamarkaða og afkoma Íslandsbanka verið betri en búist var við um miðjan mars. Frá 16.mars og fram til 16.desember hafi hlutabréfaverð á Íslandi hækkað um 50 prósent. Hlutabréf evrópskra banka hafa hækkað um nánast þriðjung, að því er kemur fram í minnisblaðinu.

Þar að auki hafa skráningar á íslenskan verðbréfamarkað lukkast vel á tímabilinu, en þar er líklega vísað til hlutafjárútboðs Icelandair þar sem mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum flugfélagsins.

Leggur Bankasýslan til að undirbúningur að skráningu Íslandsbanka verði hafinn strax í janúar næstkomandi og að skráningarferlinu ljúki í maí.

Bankasýslan telur að stærð útboðsins ætti ekki að vera ákvörðuð á þessum tímapunkti, enda er verður eftirspurn fjárfesta með tilliti til verðs bréfanna og umfangs útboðs ekki kunn fyrr að fjárfestakynningum loknum. Eftirspurn fjárfesta muni ráðast af afkomu Íslandsbanka og heilbrigði fjármálamarkaða á fyrri helmingi næsta árs.

Bankasýslan mælir þannig með því að umfang útboðsins verði ekki ákveðið fyrr en í maí á næsta ári.