Bankasýsla ríkisins lagði fram í gær tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fái heimild til að selja alla eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka í nokkrum áföngum og að höfðu samráði við ráðherra um skiptingu þeirra og tímasetningar. Óskað er eftir að þessi heimild gildi í tvö ár eða til og með 31. desember 2023, líkt og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar og fjárlög fyrir árið 2022 kveða á um. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Virðismat á fjármálafyrirtækjum er ásættanlegt um þessar mundir að dómi Bankasýslu ríkisins. Þannig hækkuðu hlutabréf í bönkum mikið á árinu, bæði innanlands og í Evrópu. Ef litið er svo til hlutafjármargfaldara hlutabréfa í íslenskum bönkum á þessari stundu er hann með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Er tillagan í samræmi við fyrirætlanir stjórnvalda, eins og þær birtast í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022 þar sem fram kemur að stefna eigi að selja allan eignarhlut í bankanum á þessu og næsta ári. Gera áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að selja mætti um helming eignarhluta á þessu ári og helming á því næsta, en áfangaskipting og tímasetningar ráðast af aðstæðum hverju sinni, að því er fram kemur í minnisblaði til ráðherra.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þann 22. júní sl. voru hlutir í Íslandsbanka teknir til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallar Íslands eftir vel heppnað frumútboð á rúmum 35 prósent af hlutafé í bankanum á 79 krónur á hvern hlut. Nam söluandvirði hlutanna 55,3 milljörðum króna og var þetta stærsta frumútboð og næst stærsta almenna útboð á hlutabréfum á Íslandi. Í gær var lokaverð á hvern hlut 124,6 krónur og markaðsvirði hlutafjár í bankanum því 249,2 milljarðar króna og markaðsvirði 65 prósent eignarhlutar ríkisins í honum þar með 162 milljarðar króna.

Þar sem hlutir í bankanum eru skráðir á skipulegum markaði telur Bankasýsla ríkisins einsýnt að sala á frekari hlutum fari einnig fram með almennu útboði. Aftur á móti er ljóst vegna umfangs áætlaðrar sölu og stærðar útboða á hlutabréfamörkuðum að framkvæma þurfi sölu á svo stórum eignarhlut í mörgum skrefum.

Þar sem markaðsaðstæður, sem geta breyst með skömmum fyrirvara, ráða því að mestu leyti hvenær tímasetning hverrar sölu er ákveðin og sala með almennu útboði tekur afar skamman tíma, telur Bankasýsla ríkisins rétt að ráðherra afli víðtækra heimilda til sölu. Er tilllaga stofnunarinnar í fullu samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 2022, sem samþykkt voru á Alþingi 28. desember sl. Aftur á móti verður ráðherra upplýstur að fullu leyti um hverja sölu, enda þarf samþykki hans fyrir söluverði og sölumagni í hvert skipti sem eignarhlutir ríkisins í bankanum eru framseldir til annarra eiganda. Að mati stofnunarinnar er ekkert í lögum nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eða lögskýringagögnum sem stendur í vegi fyrir þessari tilhögun

Bankasýsla ríkisins að eftirlitsskyldir aðilar eins og lífeyrisssjóðir, sjóðir rekstrarfélaga og tryggingarfélög hafi bolmagn og áhuga.
Fréttablaðið/Eyþór

Bankasýsla ríkisins að eftirlitsskyldir aðilar eins og lífeyrisssjóðir, sjóðir rekstrarfélaga og tryggingarfélög hafi bolmagn og áhuga. Þá telur stofnunin að sama gildi um einstaklinga, sem teljast til hæfra fjárfesta, en þeir þurftu að sæta skerðingu í frumútboðinu m.a. vegna mikillar umframeftirspurnar og áherslu á dreift eignarhald á bankanum, sbr. ákvæði laga. Einnig má ekki líta fram hjá því að þessir fjárfestar nutu mikillar ávöxtunar á fjárfestingum í hlutabréfum á síðasta ári, sem gæti þurft að endurfjárfesta á þessu ári.

Bankasýsla ríkisins telur að lífeyrissjóðir muni sýna útboðinu verulegan áhuga. Þannig er ekki ólíklegt að stærstu sjóðirnir muni vilja auka við hlut sinn í samræmi við hámarkshlut, sem þeir mega halda á í hverju félagi.

Bankasýslan telur að margir þættir bendi til þess að erlendir fjárfestar muni sýna frekari sölu áhuga. Þannig var töluverð þátttaka á meðal erlendra fjárfesta í frumútboðinu í júní sl. Þrátt fyrir það að einhverjir erlendir sjóðir hafi minnkað við stöðu sína í bréfum í bankanum frá frumútboðinu, hefur hlutdeild erlenda langtímafjárfesta (e. long only investors) haldist nokkuð stöðugt. Þá verður einnig að líta til þess að frá skráningu hefur ávöxtun á hlutum í bankanum verið afar góð í samanburði við aðra evrópska banka.

Þá eru vísbendingar um það að íslensk hlutabréf muni hækka um flokk í alþjóðlegum hlutabréfavísitölum, en slík hækkun gæti skilað sér í aukinni eftirspurn eftir hlutum í Íslandsbanka. Þá getur aukin áhersla alþjóðlegra sjóða á fjárfestingar í félögum, sem leggja áhersu á umhverfið (e. environment), samfélagið (e. social) og stjórnarhætti (e. governance), eða ESG, leitt til aukinnar þátttöku í frekari sölu.12 Loks verður að líta til þess að frá árámótum og til dagsins í dag hafa hlutabréf banka í Eurostoxx 600 vísitölunni hækkað um 7,9 prósent eða meira en hlutabréf í öðrum atvinnugeirum fyrir utan tæknifyrirtæki og orkufyrirtæki.