David Solomon, bankastjóri Goldman Sachs, eins stærsta fjárfestingarbanka heims, hefur beðið malasísku þjóðina afsökunar á þátttöku Tim Leissner, fyrrverandi meðeigenda bankans, í fjármálahneykslinu í kringum fjárfestingasjóðinn 1MDB.

Á fundi með fjárfestum fyrr í dag sagði bankastjórinn það „alveg ljóst“ að margir, þar á meðal háttsettir embættismenn innan malasísku ríkisstjórnarinnar sem og Tim Leissner, hefðu svikið Malasíubúa.

„Hvað varðar hlutverk Leissners í misferlinu, þá biðjum við Malasíubúa afsökunar,“ nefndi Solomon, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Embætti ríkissaksóknara í Malasíu ákærði í síðasta mánuði bandaríska fjárfestingarbankann og tvo bankamenn fyrir auðgungarbrot í tengslum við fjárfestingasjóðinn sem var í eigu malasíska ríkisins. Þá hefur Goldman Sachs verið krafinn um greiðslu sekta upp á þrjá milljarða dala fyrir að hafa komið að stórfelldum fjárdrætti sem er talinn nema allt að 2,7 milljörðum dala.

Ákæra hefur jafnframt verið gefin út á hendur þeim Leissner og Roger Ng Chong Hwa, fyrrverandi starfsmönnum Goldman Sachs, en þeim er meðal annars gefið að sök að hafa mútað malasískum embættismönnum til þess að tryggja aðkomu bankans að 6,5 milljarða dala skuldabréfaútboðum 1MDB sjóðsins.

Solomon sagði á fundinum í dag að Leissner og malasískir embættismenn hefðu blekkt bankann. „Það er forgangsmál fyrir mig að við séum gagnrýnin á okkur sjálf,“ nefndi bankastjórinn.