Jamie Dimon, bankastjóri JPMorgan Chase, fær greiddar um 31,5 milljónir dala, sem jafngildir um 3,9 milljörðum króna, í laun fyrir síðasta ár. Er hann þannig hæst launaði bankastjóri bandarísks banka fimmta árið í röð.

Upplýsingar um launa- og árangursgreiðslur bandaríska stórbankans til Dimons komu fram í tilkynningu sem bankinn sendi yfirvöldum þar í landi fyrr í vikunni í kjölfar birtingar ársuppgjörs bankans fyrir síðasta ár.

Árslaun Dimons námu 1,5 milljónum dala á síðasta ári og héldust óbreytt frá fyrra ári. Til viðbótar fékk hann greiddar fimm milljónir dala í bónus auk hlutabréfapakka að virði um 25 milljónir dala. Endanlegt virði hlutabréfapakkans mun þó ráðast af rekstrarárangri bankans á næstu þremur árum, að því er segir í frétt Financial Times um málið.

Hlutabréf í JPMorgan hækkuðu um meira en fjörutíu prósent í verði í fyrra en til samanburðar hækkaði S&P 500 vísitalan um 29 prósent á sama tíma.

Í frétt Financial Times er rakið að laun Dimons, sem hefur gegnt starfi bankastjóra JPMorgan í fjórtán ár, hafi lítillega aukist frá árinu 2018 þegar þau námu samanlagt 31 milljón dala.

JPMorgan skilaði methagnaði á síðasta ári, annað árið í röð, en alls nam hagnaður bankans um 36,4 milljörðum á árinu borið saman við 32,5 milljarða dala árið 2018.