Bankastjóri og aðstoðarbankastjóri Arion banka keyptu í dag hlutabréf í bankanum fyrir samanlagt 27 milljónir króna, eftir því sem fram kemur í tilkynningu sem birt hefur verið í Kauphöllinni.

Benedikt Gíslason bankastjóri keypti - í gegnum félag sitt Brekkuás - samanlagt 300 þúsund hluti á genginu 59,99 krónur á hlut og nam kaupverðið þannig átján milljónum króna.

Þá festi Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs, kaup á tæplega 150 þúsund hlutum á sama gengi og var því kaupverðið um níu milljónir króna.

Í kjölfar kaupanna fer Benedikt með samanlagt 2,3 milljónir hluta í Arion banka - bæði í eigin nafni og í gegnum Brekkuás - að virði nærri 140 milljóna króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í bankanum.

Félag Ásgeirs - BBL VII - fer hins vegar með um 1,15 milljónir hluta í bankanum að virði um 70 milljóna króna.

Hlutabréf í Arion banka hafa hækkað um ríflega fimm prósent í verði undanfarinn mánuð en sé litið til áramóta nemur gengislækkun þeirra rúmum þrjátíu prósentum.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Fréttablaðið/Ernir