Laun bankastjóra Landsbankans og Íslandsbanka hafa verið lækkuð í samræmi við tilmæli fjármálaráðherra.

Þetta kemur fram í bréf Bankasýslu ríkisins til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þar er fyrst vísað til bréfs sem barst frá formanni bankastjórnar Íslandsbanka þar sem fram kom að frá og með 1. apríl verði laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, 3.650.000 krónur á mánuði án hlunninda en þau nema nú 4,2 milljónum króna.

Bent er á að mánaðarlaun Birnu án hlunninda hafi numið 3.850.000 krónum á mánuði þegar ríkissjóður eignaðist allt hlutafé í bankanum árið 2016. Frá og með 1. apríl nema mánaðarleg hlunnindi Birnu 200 þúsund krónum og því verða heildarlaun hennar 3.850.000 krónur á mánuði. Þannig hefur öll hækkun á launum og hlunnindum Birnu sem varð frá árinu 2016 verið dregin til baka.

Þá er einnig vísað til bréfs frá bankaráði Landsbankans sem upplýsti Bankasýsluna um að launahækkun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hefði gengið til baka. Á móti kemur vísitöluhækkun upp á 7,81 prósent. 

Grunnlaun Lilju Bjarkar eftir lækkun verða 3.297 þúsund krónur á mánuði og bifreiðarhlunnindi 206 þúsund. Heildarlaun bankastjóra Landsbankans verða því 3.503 þúsund krónur á mánuði.

„Með þessari ákvörðun er komið til móts við sjónarmið sem fjármálaráðherra lagði fram í bréfin sínu til Bankasýslu ríkisins 28. febrúar,“ segir í bréfi bankaráðs Landsbankans til bankasýslunnar.