Arion banki og Íslandsbanki vinna að því að auka hlut grænna lána í lánasöfnum sínum, bæði með nýjum lánum og með því að endurfjármagna lán sem nú þegar uppfylla alþjóðlega staðla um græn lán. Frumúttekt Arion banka sýnir að hátt í 30 prósent af núverandi lánum til stærri fyrirtækja geti flokkast sem græn lán. Þau gætu komið til lækkunar á eiginfjáraukum bankanna ef hugmyndir þess efnis ná fram að ganga innan Evrópusambandsins og opnað aðgengi að nýjum fjárfestum.

„Það gæti komið til kostnaðarhagræðis vegna minni eiginfjárbindingar eða hagkvæmari fjármögnunar, en það er ekki í hendi eins og staðan er í dag,“ segir Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur haft til skoðunar um nokkurt skeið að slaka á eiginfjárkröfum sem eru gerðar til banka í því skyni að hvetja til grænna fjárfestinga í Evrópu. Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, kom inn á þessi áform í nýlegu viðtali við Markaðinn þar sem hún sagði að í framtíðinni væri áætlað að umhverfis- og samfélagsþættir yrðu hafðir til hliðsjónar í árlegu innra mati á eiginfjárþörf fjármálafyrirtækja.

Ergo, bílafjármögnun Íslandsbanka, tilkynnti um sérkjör við fjármögnun vistvænna bifreiða um miðjan júní en gefinn er 0,75 prósentustiga afsláttur frá gildandi verðskrá. Fram kom í tilkynningunni að það væri „eindreginn vilji að auka hlut slíkrar fjármögnunar í lánasafninu“.

„Það á síðan eftir að skýrast hvort fleiri tækifæri muni fylgja þessu. Annars vegar hvort það verði lægri kostnaður við eigið fé og hins vegar hvort við fáum betri kjör með grænni fjármögnun.“

Jón Guðni segir að bankinn sé að móta heildstæða stefnu í grænni og sjálfbærri fjármögnun í samræmi við sjálfbærnistefnu bankans sem var samþykkt í lok síðasta árs. Grænu lán Ergo séu eitt af fyrstu skrefunum og líklegt sé að bankinn muni kynna fleiri sjálfbærar fjármálaafurðir á þessu ári.

„Við erum að kortleggja hversu stór hluti af núverandi lánum telst vera sjálfbær og hvernig við munum halda utan um slík lán. Það getur verið kerfislega flókið enda þarf að setja ákveðin skilyrði og hafa eftirlit með að þau séu uppfyllt til þess að lánin falli í þennan flokk. Í framhaldinu getum við sett okkur markmið um hlutdeild sjálfbærra lána í safninu,“ segir Jón Guðni.

Bilið breikkar

Íslandsbanki stefnir að því að fjármagna sig með grænni fjármögnun til lengri tíma og horfir meðal annars til grænna skuldabréfa á erlendum mörkuðum og grænna innlána.

Jón Guðni segir að Íslandsbanki sé ekki að bjóða betri kjör á grænum bílalánum vegna þess að þeim fylgi kostnaðarhagræði fyrir bankann heldur telji stjórnendur bankans það vera mikilvægan hluta af sjálfbærnivegferð hans.

Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka.
Fréttablaðið/Vilhelm

„Það á síðan eftir að skýrast hvort fleiri tækifæri muni fylgja þessu. Annars vegar hvort það verði lægri kostnaður við eigið fé og hins vegar hvort við fáum betri kjör með grænni fjármögnun,“ segir Jón Guðni. Munurinn á kjörum á grænni fjármögnun og venjulegri fjármögnun hafi verið lítill hingað til, um 10 til 20 punktar, en fari vaxandi í takt við aukinn áhuga fjárfesta.

Fasteignalán helsta álitaefnið

Arion banki horfir einnig til þess að auka hlut grænna lánveitinga í sínu lánasafni og sækja sér græna fjármögnun. Arion varð í síðustu viku fyrstur íslenskra banka til þess að bjóða viðskiptavinum að leggja sparnað sinn inn á græna innlánsreikninga en til að byrja með verður innlánunum miðlað í lán til kaupa á bílum sem nýta umhverfisvæna orkugjafa.

„Markmiðið er að auka hlut grænna verkefna í lánasafni bankans, en fyrst þarf að skilgreina hvað telst grænt og hvað ekki. Það er vinna sem við höfum lokið hvað varðar lánasafn bankans til stærri fyrirtækja,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

„Það þarf að liggja fyrir hvað skal fjármagna grænt, hvort sem það eru ný verkefni eða endurfjármögnun eldri verkefna sem eru þegar hluti af lánasafni okkar.“

Það er flóknara verkefni en ætla mætti í fyrstu, að sögn Benedikts, þar sem ólíkar skoðanir eru á því hvað telst raunverulega grænt. Víða erlendis er hins vegar hægt að finna ramma eða umgjarðir um lánveitingar, fjármögnun og atvinnustarfsemi sem hægt er að styðjast við þegar meta á hve græn tiltekin verkefni eða starfsemi er.

Evrópusambandið hefur til að mynda unnið skilgreiningar fyrir ólíka atvinnustarfsemi þar sem útlistuð eru skilyrði fyrir því hvað getur talist grænt. Þó hefur ýmis atvinnustarfsemi enn ekki verið skilgreind, til dæmis sjávarútvegur, sem hefur töluvert vægi hérlendis.

„Frumúttekt okkar á lánasafni bankans til stærri fyrirtækja sýnir að að minnsta kosti 20-30 prósent af því lánasafni flokkast græn. Þessi úttekt var unnin með helstu sérfræðingum í grænni fjármögnun,“ segir Benedikt en helsta álitaefnið snýr að fasteignafjármögnun sem er mjög stór hluti lánasafns Arion banka. Hann segir að þar sé einfaldlega skortur á upplýsingum og viðmiðum hér á landi.

„Við gætum horft til þess að íslenskar fasteignir eru nánast undantekningarlaust hitaðar á umhverfisvænan máta og einangraðar til að spara orku, en við viljum sjá hvert leiðin liggur í setningu markmiða og viðmiða,“ segir Benedikt.

Tjalda ekki til einnar nætur

Arion banki hefur ekki sett sér markmið varðandi hlutfall grænna lána í lánasafni sínu en það er næsta skref. Þá segir Benedikt að bankinn muni sækja sér græna fjármögnun þegar aðstæður eru réttar og greining á lánasafninu sé mikilvæg forsenda þess.

„Það þarf að liggja fyrir hvað skal fjármagna grænt, hvort sem það eru ný verkefni eða endurfjármögnun eldri verkefna sem eru þegar hluti af lánasafni okkar. Græn fjármögnun er ekki endilega á hagstæðari kjörum en líkleg til að opna á aðgengi að nýjum fjárfestum sem vilja fjárfesta í grænum verkefnum og það er eitt af því sem gerir hana eftirsóknarverða,“ segir Benedikt.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Fréttablaðið/Ernir

Spurður um fjárhagslega ávinninginn fyrir Arion banka segist Benedikt hafa trú á því að langtímaávinningur af grænum lánum og grænni fjármögnun muni skila sér smám saman.

„Við erum þarna ekki að tjalda til einnar nætur heldur horfa til framtíðar. Þá tel ég að græn verkefni séu almennt góð fjárfesting og séu alla jafna áhættuminni þegar til lengri tíma er litið,“ segir hann.

„Það væri vissulega jákvætt skref ef, í framtíðinni, grænar lánveitingar leiddu til lægri eiginfjárkrafna en það er í raun ekki það sem drífur okkur áfram. Við teljum þetta rétt skref að taka og sjáum einnig tækifæri í því að laða að okkur nýja viðskiptavini sem er annt um umhverfið.“