„Lítill munur á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum veldur því að það er lítill hvati til að taka verðtryggð lán í langflestum tilfellum. Heimilin eru að sýna að þau eru með á nótunum, segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Ný óverðtryggð húsnæðislán banka til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, hafa á síðustu þremur mánuðum numið samtals 146 milljörðum króna samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands. Á sama tímabili hafa ný verðtryggð lán verið nettó neikvæð um 5,8 milljarða.

Húsnæðislán íslensku bankanna til heimila námu samtals 1.052 milljörðum króna í lok júní. Hlutdeild verðtryggðra lána nam 57 prósentum á móti 43 prósenta hlutdeild óverðtryggðra lána. Til samanburðar nam hlutdeild óverðtryggðra lána 38 prósentum í byrjun árs og 32 prósentum í byrjun árs 2019.

Konráð segir að þróunin hafi verið í þessa átt um nokkurt skeið. Vægi verðtryggingarinnar hafi minnkað hægt og bítandi, en nú fari það hratt minnkandi.

„Vægi verðtryggingarinnar verður ekki neitt ef þetta heldur svona áfram. Þó að vextir hækki lítillega í framtíðinni held ég að heimilin muni áfram sækja í óverðtryggð lán,“ segir Konráð og bætir við að allar forsendur séu fyrir því að vaxtastig verði lágt til lengri tíma litið. „Ef lágvaxtaumhverfið verður varanlegt deyr verðtryggingin drottni sínum.“

„Ef tölurnar fyrir útlán bankanna í júní eru réttar gæti hann orðið fyrsti mánuðurinn í langan tíma þar sem það eru meiri uppgreiðslur en útlán hjá lífeyrissjóðunum.“

Hlutdeild lífeyrissjóða í nýjum húsnæðislánum hefur hrunið frá byrjun árs. Nettó ný útlán lífeyrissjóða til heimila námu einungis 918 milljónum króna í maí samanborið við 11,6 milljarða króna í janúar. Á sama tíma hefur hlutdeild bankanna stóraukist en nettó útlán þeirra námu 27,5 milljörðum króna í júní samanborið við tæplega 11 milljarða í janúar.

Tölurnar fyrir útlán lífeyrissjóða í júní hafa ekki verið birtar en umsvif bankanna gefa til kynna að töluverður samdráttur sé hjá mörgum sjóðum.

„Ef tölurnar fyrir útlán bankanna í júní eru réttar gæti hann orðið fyrsti mánuðurinn í langan tíma þar sem það eru meiri uppgreiðslur en útlán hjá lífeyrissjóðunum,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Ólafur segir að munurinn á nýjum útlánum bankanna annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar komi sér á óvart. Mikil ásókn hafi verið í sjóðsfélagalán Birtu í júní en sjóðurinn býður upp á óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem eru þeir lægstu á markaðinum.

Nettó ný útlán banka og lífeyrissjóða.

„Það eru ekki svo margir lífeyrissjóðir sem bjóða upp á óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og bankarnir bjóða betri kjör á þessum lánum en flestir sjóðir. Skýringin á þessari sundurleitni milli útlána bankanna og lífeyrissjóðanna gæti verið sú að fólk finnur frekar lánin og kjörin sem það er að leita eftir hjá bönkunum. Og það gæti skýrt hvers vegna við höfum ekki séð eins mikinn samdrátt og aðrir sjóðir,“ segir Ólafur.

Alls námu sjóðsfélagalán lífeyrissjóða 544 milljörðum króna í lok maí. Þar af voru 422 milljarðar verðtryggð lán og 122 óverðtryggð lán.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), segist hafa merkt töluverðar uppgreiðslur sjóðsfélaga á allra síðustu mánuðum. Bankarnir hafi lækkað vexti meira en lífeyrissjóðirnir.

Lækkandi vextir eru áskorun í því að ná þeirri ávöxtun sem við þurfum að ná til þess að geta staðið við okkar skuldbindingar.

„Án þess að hafa séð bækur bankanna er mín ágiskun sú að þeir eigi erfiðara með að koma peningum í vinnu því samdráttur í hagkerfinu gerir það að verkum að þeir lána ekki eins mikið til fyrirtækja en vextir á húsnæðislánum eru lækkaðir til að lána meira til heimilanna,“ segir Harpa.

Aðspurð segir Harpa að uppgreiðslur sjóðsfélaga hafi ekki valdið miklum röskunum fyrir lífeyrissjóðinn. „Á tímabili var of mikil aukning í sjóðsfélagalánum og þá þrengdum við lánareglurnar. Við erum með þúsund milljarða af eignum og aðeins meiri uppgreiðslur í nokkra mánuði telja því lítið,“ segir Harpa.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.

Innlán lífeyrissjóða í íslensku bönkunum hefur aukist um tæplega 40 milljarða króna frá ársbyrjun, eða úr 153 milljörðum og upp í 190 milljarða. Spurð hvort LSR eigi auðvelt með að finna peningunum annan farveg segir Harpa að svarið sé bæði já og nei.

„Við komum peningunum í vinnu með öðrum hætti en það verður að segjast eins og er að lækkandi vextir eru áskorun í því að ná þeirri ávöxtun sem við þurfum að ná til þess að geta staðið við okkar skuldbindingar.“