Stjórnir Arion banka og Ís­lands­banka eru með mál Sam­herja í Namibíu til skoðunar. Lands­bankinn tjáir sig ekki um mál ein­stakra við­skipta­vina. Starfandi for­stjóri Sam­herja segir að fyrir­tækið muni veita allar upp­lýsingar sem kostur sé á, að því er fram kemur í Morgun­blaðinu í dag.

Þar kemur fram að stjórn Arion banka hafi á­kveðið að fara fram á að við­skipt bankans við Sam­herja verði skoðuð ítar­lega. Að öðru leyti mun stjórnin ekki tjá sig frekar um málið.

Frið­rik Sophus­son, stjórnar­for­maður Ís­lands­banka, tekur í svipaðan streng. Hann segir að stjórn bankans muni funda í dag og að mál Sam­herja verði þar væntan­lega á dag­skrá.

Helga Björk Ei­ríks­dóttir, for­maður banka­ráðs Lands­bankans, gaf hins vegar ekkert upp og segir bankann ekki tjá sig um ein­staka við­skipta­vini. Bankinn hafi reglu­bundið eftir­lit með við­skipta­vinum sínum og farið væri yfir við­skipta­sam­bönd ef grunnur leikur á mögu­legu mis­ferli.

Norski bankinn DNB hefur þegar til­kynnt að skatta­hluti Sam­herja­málsins sé til skoðunar hjá bankanum. Eins og fram hefur komið hætti bankinn við­skiptum við fé­lag tengt Sam­herja í fyrra vegna gruns um að fé­lagið væri notað í peninga­þvætti.